Nýjasti þáttur úr smiðju Pyngjunnar er undirlagður yfirstandandi hlutafjárútboði Nova. Þátturinn er tvískiptur, en fyrri hlutinn er yfirferð Pyngjubræðra um ársreikning félagsins og útboðskynninguna og seinni hlutinn er viðtal við Margréti Tryggvadóttur, forstjóra Nova, og Magnús Árnason sem fer fyrir markaðsmálum og stafrænni þróun.
Nova hóf rekstur 1.desember árið 2007 og hefur síðan þá kynnt margar nýjungar á íslenskum fjarskiptamarkaði líkt og „0 kr. Nova í Nova“ og „vinatóna“ svo fátt eitt sé nefnt. Síðan þá hefur þó margt vatn runnið til sjávar og í dag stendur yfir hlutafjárútboð félagsins sem hefur verið í pípunum í nokkurn tíma.
2021 var tekjuhæsta ár Nova frá upphafi en tekjur félagsins hafa vaxið um 8,1% að meðaltali frá árinu 2015. Tekjur félagsins voru um 12,1 milljarður króna í fyrra að frádreginni einskiptissölu en á árinu seldi Nova svokallaða óvirka fjarskiptainnviði og var söluhagnaðurinn tæpar 900 milljónir króna.
Fram kemur í þættinum, þar sem vísað er í útboðslýsinguna, að Nova hefur á stuttum tíma náð góðum tekjuvexti á sölu ljósleiðara, eða um 640% frá 2017. Þó er markaðshlutdeild þeirra ekki nema 15% og því næg tækifæri til vaxtar á þeim markaði. Nova er þó í sérflokki þegar kemur að markaðshlutdeild í gagnamagni en þar er félagið með um 60% hlutdeild þrátt fyrir að vera einungis með 33% af hlutdeild viðskiptavina.
Í seinni parti viðtalsins fara þau Margrét og Magnús um víðan völl og ræða meðal annars breytta neytendahegðun yngsta aldurshópsins sem ólíkt fyrir kynslóðum er lengur inn í fjölskyldupakka foreldra sinna.
Þegar talið berst að strategíu og því sem hefur átt sér stað meðal annarra fjarskiptafyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem fjarskiptafyrirtæki og fjölmiðlasamsteypur eru að sameinast var Margrét aðdráttarlaus í svörum og sagði „nei“ spurð um hvort það komi til greina. Styrkleikar Nova séu að veita topp þjónustu í síma og interneti. Magnús bætti því við að samkeppnin erlendis frá sé að aukast og þau sjái ekki hag sinn í því að keppa við stórar samsteypur eins og Disney eða Netflix en séu aftur á móti þjónustuaðili fyrir slíka afþreyingu í gegnum internet.
Nova er eitt fyrirferðamesta markaðsfyrirtæki landsins og hefur staðið fyrir fjölda auglýsingaherferða sem vakið hafa athygli í gegnum tíðina. Aðspurð segir Margrét að geðheilsuherferð fyrirtækisins sé henni kærust í sinni tíð hjá fyrirtækinu en síðastliðin þrjú ár hefur Nova boðið upp á 50 mín sálfræðiviðtöl hjá Mín líðan í gegnum app fyrirtækisins.
Hægt er að hlusta á þættina hér fyrir neðan.