Snúin staða stjórnar Festar

Festi sendi frá sér tilkynningu um að forstjóri félagsins hefði …
Festi sendi frá sér tilkynningu um að forstjóri félagsins hefði kosið að láta af störfum. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn Festar gæti verið í snúinni stöðu verði krafa hóps hluthafa í félaginu um hluthafafund að veruleika. Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær hefur hópur hluthafa rætt það sín á milli að óska eftir hluthafafundi vegna óánægju með þá ákvörðun stjórnar að víkja Eggert Þór Kristóferssyni úr starfi forstjóra í síðustu viku. Í tilkynningu sem senda var Kauphöll á miðvikudag í síðustu viku kom fram að Eggert Þór hefði sjálfur sagt upp störfum, en eins og greint var frá í ViðskiptaMogga á miðvikudag var það ákvörðun stjórnar að víkja honum úr starfi, þó þannig að hann myndi starfa út júlímánuð.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var það sameiginleg niðurstaða stjórnar og forstjóra að útfæra uppsögnina með þeim hætti. Sú ákvörðun hefur þó dregið þann dilk á eftir sér að bæði Morgunblaðið og Viðskiptablaðið hafa greint frá því að Eggerti Þór hafi verið sagt upp störfum. Fréttaflutningi blaðanna af málinu hefur ekki verið mótmælt.

Fari svo að hluthafafundur verði haldinn, er stjórn félagsins engu að síður bundin af því sem búið er að tilkynna til Kauphallar. Samkvæmt því þarf stjórnin að tilkynna hluthöfum sem sækja fundinn, að málið sé svona í pottinn búið og að Eggert Þór hafi sjálfur sagt upp störfum. Þó verður að teljast ólíklegt að þeir sem sérstaklega óska eftir hluthafafundi sætti sig við þau svör.

Ef stjórnin hins vegar upplýsir um önnur málsatvik þarf hún um leið að viðurkenna að fyrrnefnd tilkynning til Kauphallarinnar hafi verið röng eða villandi. Fyrir stjórn í skráðu félagi er slíkt nær ógjörningur enda myndi það kalla á viðbrögð fjármálaeftirlits Seðlabankans. Í gærkvöldi var greint frá því á vef Viðskiptablaðsins að Kauphöllin hefði málið til skoðunar.

Rétt er að taka fram að enn hefur ekki verið kallað til hluthafafundar, enda þurfa eigendur 10% hluta félagsins að óska eftir því. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er mikið þrýst á þá 13 lífeyrissjóði sem eiga hlut í félaginu að styðja við beiðni um hluthafafund, enda myndi þátttaka þeirra flýta fyrir þeirri ákvörðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK