Stjórn Festi staðfestir brottrekstur Eggerts

Stjórn Festi hf. hafði forgöngu að samtali við Eggert Þór Kristófersson, forstjóra Festi, um starfslok hans fimmtudaginn 2. júní 2022. Í framhaldi af því óskaði Eggert Þór eftir því að fá að segja upp störfum í stað þess að honum yrði sagt upp og var fallist á þá málaleitan. Samningur milli stjórnar og Eggerts Þórs náðust samdægurs og tilkynning var send til Kauphallar.

Þetta atburðarrás er rakin í tilkynningu sem Festi sendi á Kauphöllina nú fyrir stundu. Eins og fjallað hefur verið um síðustu daga hefur hópur hluthafa dregið í efa sannleiksgildi og innihald þeirrar tilkynningar sem hér var vísað til og send var út í síðustu viku en bæði Morgunblaðið og Viðskiptablaðið hafa fjallað um það að forstjóra félagsins hafi í raun og veru verið vikið úr starfi.

Tilkynningin frá stjórn Festi, sem var sem fyrr segir send út nú síðdegis, staðfestir það að stjórnin vildi Eggert Þór úr starfinu, þó honum hafi verið gefinn kostur á því að segja upp sjálfur. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var þó ágreiningur í stjórn félagsins um brottrekstur Eggerts Þórs.

Þá segir í tilkynningunni að samtal við hluthafa þegar svona ferli stendur yfir sé beinlínis á skjön við reglur Kauphallarinnar, en eins og Morgunblaðið hefur greint frá hefur hópur hluthafa rætt það sín á milli að óska eftir hluthafafundi til að krefja stjórn félagsins um útskýringar á atburðarrásinni og ástæðum uppsagnarinnar.

„Stjórnin stendur við ákvörðun sína og byggir hana á því mati að félagið standi nú á tímamótum eftir mörg ár uppbyggingar og mótunar. Þessi tímamót, á sama tíma og samkeppni er að aukast á öllum rekstrarsviðum félagsins og ólík verkefni blasa við, kalla á nýja nálgun og nýjar hendur til að vinna verkin. Hluthafar geta að sjálfsögðu haft aðra skoðun á þessu máli og komið þeirri skoðun á framfæri við stjórn eftir viðeigandi boðleiðum,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Leggjast gegn hluthafafundi og senda lífeyrissjóðum skilaboð

Þá má lesa það úr tilkynningunni að stjórn félagsins leggst gegn því að hluthafafundur verði haldinn og sendir lífeyrissjóðum, sem eiga stærstan hluta í Festi, skilaboð þess efnis. Eins og Morgunblaðið hefur fjallað um hafa hluthafar þrýst á lífeyrissjóði um að samþykkja beiðni þeirra um hluthafafund, en til þess þarf 10% hlutfall hluthafa.

„Erfitt er hins vegar að taka það samtal í smáatriðum á hluthafafundi, þar sem til staðar eru, auk hluthafa, fjölmiðlar og fulltrúar samkeppnisaðila,“ segir í tilkynningunni í dag.

„Á sama tíma gerir stjórn sér grein fyrir, eins og samkeppnisyfirvöld, að eignarhald skráðra félaga á Íslandi, þar sem lífeyrissjóðir fara oft sameiginlega með meirihluta hlutafjár í samkeppnisaðilum, er vandmeðfarið og krefjandi. Lífeyrissjóðir verða að tryggja virka samkeppni samkeppnisaðila sem þeir eiga hluti í. Þá verður einnig að horfa til þess að Festi hf. er aðili að sátt við samkeppnisyfirvöld sem virða ber í hvívetna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK