Grípa til aðgerða vegna fasteignalána

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85%. Hlutfallið fyrir aðra kaupendur verður óbreytt.

Nefndin hefur einnig ákveðið að setja viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Viðmiðið verður að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána, að því er kemur fram í tilkynningu.

Nefndin hefur sömuleiðis ákveðið að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár.

„Breytingum á greiðslubyrðarhlutfalli er ætlað að efla áhættuvitund lántakenda við val þeirra milli lánsforma en greiðslubyrði verðtryggðra lána er hlutfallslega léttari í upphafi en þyngri eftir því sem líður á lánstímann. Markmið framangreindra aðgerða er að takmarka uppsöfnun kerfisáhættu í fjármálakerfinu,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að viðnámsþróttur kerfislega mikilvægu bankanna sé mikill og eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra sé vel yfir lögbundnum mörkum.

Gæta þurfi þess að vaxandi efnahagsumsvifum fylgi ekki yfirdrifin áhættusækni og óhóflegur vöxtur útlána sem gæti veikt viðnámsþrótt fjármálakerfisins.

„Verði bakslag í alþjóðlegum efnahagsbata gæti það haft áhrif á fjármálastöðugleika hér á landi,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK