Icelandair hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á fjórum Boeing 737 MAX-flugvélum. Vélarnar voru framleiddar árið 2018 og gert er ráð fyrir að þær verði afhentar í haust. Með þessari viðbót verður félagið með átján 737 MAX-vélar í rekstri.
„Það er ánægjulegt að halda áfram að fjölga Boeing 737 MAX-vélum í flotanum okkar á góðum kjörum. Þær eru af nýrri kynslóð umhverfisvænni flugvéla og því mikilvægur þáttur í að draga úr kolefnislosun í starfsemi okkar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.
„Við höfum aukið starfsemina jafnt og þétt eftir heimsfaraldurinn og höldum nú úti mjög öflugu leiðakerfi sem tengir Evrópu og Norður-Ameríku í gegnum Ísland. Í sumar fljúgum við í beinu flugi til 44 áfangastaða erlendis, allt að fimm sinnum á dag.
Þessi viðbót við flotann gefur okkur tækifæri til þess að auka þjónustuna enn frekar með því að bæta við áfangastöðum og fjölga ferðum til þeirra staða sem við fljúgum til nú þegar.“