Stjórn Festi hefur ákveðið að boða hluthafafund vegna þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram í tengslum við starfslok forstjóra félagsins sem tilkynnt voru þann 2. júní sl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Festi en hluthafafundurinn mun fara fram 14. júlí nk.
Eins og Morgunblaðið hefur fjallað um ríkir ágreiningur meðal hluthafa vegna ákvörðun stjórnar Festi að víkja Eggerti Þór Kristóferssyni forstjóra úr starfi. Þá hefur tilkynning félagsins um starfslok hans til Kauphallar sem send var sama dag verið gagnrýnd en þar kom fram að forstjórinn hefði sjálfur óskað eftir því að segja upp störfum.
„Stjórn víkur sér ekki undan málefnalegri gagnrýni en telur að horft til framtíðar sé ákvörðun hennar um forstjóraskipti rétt og mikilvægt skref í áframhaldandi þróun félagsins. Vöxtur og viðgangur Festi er mikilvægari en einstaka stjórnendur þess eða stjórn,“ segir í tilkynningunni.
Eins og fjallað hefur verið um hefur hópur hluthafa kallað eftir því að boðað verði til hluthafafundar þar sem stjórn félagsins greini frá ástæðum og tilefni þess að segja forstjóranum upp störfum. Til að boða til hluthafafundar þurfa fulltrúar 10% eigenda að óska eftir slíku en það hefur ekki gengið eftir.
Sem fyrr segir hefur stjórnin þó sjálf boðað til hluthafafundar. Á þeim fundi stendur þó ekki til að skýra ákvörðun um forstjóraskiptin heldur verður stjórnarkjör eina málið á dagskrá fundarins. Í upphafi fundarins mun stjórn félagsins segja af sér til að tryggja að stjórnarkjör fari fram. Í tilkynningunni kemur fram að tilgangur fundarins sé að gefa hluthöfum færi á að kjósa nýja stjórn, eftir atvikum að endurnýja umboð sitjandi stjórnar, eða kjósa nýja eða breytta stjórn, allt eftir því hvað hluthöfum sýnist og hverjir gefa kost á sér til stjórnarstarfa.
Þá hefur fráfarandi stjórn Festi lagt til við tilnefningarnefnd að hún geri tillögu um fleiri stjórnarmenn en fimm einstaklinga svo tryggt sé að hluthafar geti kosið á milli frambjóðenda og ekki verði sjálfkjörið. Fulltrúi stjórnar í Tilnefningarnefnd mun ekki að þessu sinni taka þátt í störfum nefndarinnar.