Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Eimskip, hefur verið boðaður í skýrslutöku hjá embætti héraðssaksóknara vegna rannsóknar á sölu skipanna Goðafoss og Laxfoss árið 2019. Hann nýtur réttrarstöðu sakbornings við skýrslutökuna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip til Kauphallarinnar fyrr í kvöld. Þar kemur einnig fram að Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, muni gefa skýrslu hjá embættinu í þágu rannsóknarinanr sem fyrirsvarsmaður félagsins. Hann er þó ekki grunaður um refsiverða háttsemi.
Málið má rekja til kæru Umhverfisstofnunar til héraðssaksóknara árið 2020, en skipin voru seld til erlenda fyrirtækisins GMS, sem sérhæfir sig í að kaupa skip og selja þau áfram til niðurrifs. Héraðssaksóknari framkvæmdi húsleit hjá Eimskip í desember í fyrra vegna sama máls.
„Eimskip telur sig hafa fylgt í einu og öllu lögum og reglum í þessu söluferli og seldi skipin til áframhaldandi rekstrar en ekki til endurvinnslu. Félagið mun eftir sem áður leitast við að veita héraðssaksóknara allar þær upplýsingar sem um er beðið,“ segir í tilkynningunni.
Eimskip sendi frá sér aðra tilkynningu í kvöld, þar sem fram kemur að danska samkeppniseftirlitið hafi í dag framkvæmt húsleit í Álaborg hjá dönsku dótturfélagi Eimskip Holding B.V., sem er í eigu Eimskipafélags Íslands hf., á grundvelli dómsúrskurðar.
„Húsleitin snýr að starfsemi Atlantic Trucking sem er hluti af Eimskip Denmark A/S og er hluti af rannsókn á háttsemi í landflutningum í Danmörku og tók til fleiri félaga á þeim markaði. Tilgangur húsleitarinnar er að rannsaka hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum danskra samkeppnislaga,“ segir í tilkynningunni og því er bætt við að dóttufélagið vinni að því að veita dönskum samkeppnisyfirvöldum aðgang að umbeðnum upplýsingum.
Þá kemur einnig fram að Eimskip hafi ekki ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn dönskum samkeppnislögum í starfsemi Atlantic Trucking, sem hefur um 5% markaðshlutdeild í gámaflutningum á þessum markaði.