Gengum of langt við innleiðingu persónuverndarlaga

Íslenska stjórnkerfið á það til að innleiða evrópulöggjöf með sér-íslenskum breytingum, sem iðulega býr til vandræði og hindranir.

Þetta segir Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, í nýjasta þætti Dagmála þar sem hún og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarráðherra, ræða um niðurstöður árlegrar samkeppnisúttektar IMD-viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja sem birt var í síðustu viku.

Í þættinum er meðal annars fjallað um viðhorf stjórnkerfisins til samkeppnishæfni og þær spurðar hvort að bæði stjórnmálamenn og embættismenn séu meðvitaðir um mikilvægi þess að bæta samkeppnishæfni landsins.

„Stundum erum við líka kaþólskari en páfinn,“ segir Svanhildur Hólm í þættinum og nefnir til sögunnar innleiðingu á persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins. Sú löggjöf var innleidd í íslensk lög á árunum 2017-2018 en bæði fyrirtæki og stofnanir hafa ítrekað lýst því að gengið hafi verið of langt við innleiðingu hennar hér á landi.

„Við ákváðum að nýta okkur ekki það að við þurftum ekki að vera jafn ströng í innleiðingunni eins og við vorum, af því að við erum svo smá. Fyrirtækin okkar eru lítil í alþjóðlegu samhengi,“ segir Svanhildur Hólm.

Lilja Dögg tók undir þetta og nefndi sem dæmi þann mikla kostnað sem hlaust af því þegar framhaldsskólar innleiddu reglugerðina inn í starfsemi sína. Hún segir EES-samninginn þó mikilvægan og sagði hann búa til það frjálsa flæði af fjármagni og fólki sem íslenska hagkerfið þarf á að halda, en jafnframt þurfi eftir tilvikum að laga til í lögum og reglugerðum.

„Það þarf líka að laga til í reglugerðum og einfalda þannig að það séu ekki þessar hindranir og þannig að fólk með hugmyndir geti stofnað fyrirtæki,“ segir Lilja Dögg.

Hægt er að horfa á klippu úr þættinum í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK