Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að hækka stýrivexti um eina prósentu kom Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, ekki á óvart.
„Þetta var í takt við væntingar greiningar- og markaðsaðila,“ segir Halldór Benjamín og bætir við að þegar síðasta vaxtaákvörðun var kynnt hafi verið gefið sterkt til kynna að frekari hækkana væri að vænta.
„Það blasir við að hækkunartaktur húsnæðisverðs er ennþá mjög mikill. Á sama tíma sjáum við að það mælist umtalsverður skortur á starfsfólki. Það sem veldur mér mestum áhyggjum er að verðbólgan er að fara vaxandi á breiðum grunni, sem þýðir að allir undirliðir verðbólgunnar hafa verið að hækka. Það sem bankinn er að reyna að slá á er að verðbólguvæntingar eru að aukast,“ greinir Halldór frá.
Hann segir það vega á móti að efnahagslegar væntingar heimila og fyrirtækja fara dalandi sökum þess að óvissa blasir við í viðskiptaumhverfinu, ekki síst vegna eftirmála Covid-19 og stríðsátaka í Úkraínu.
„Við túlkum þetta með þeim hætti að bankinn sé að stíga stórt skref núna í þeirri trú að það hafi bein áhrif á verðbólguvæntingar sem þýðir að bankinn þurfi ekki að taka jafn afgerandi skref síðar í vaxtahækkunarferlinu.“
Halldór Benjamín bendir á að kjaraviðræður séu framundan og að verðbólga gagnist engum. Hún sé óvinur heimila og fyrirtækja í landinu. Að því leytinu fari hagsmunir fari hagsmunir Samtaka atvinnulífsins og viðsemjenda saman, eins og í langflestum málum.
„Hagsmunir landsmanna allra eru að ná tökum á verðbólgunni vegna þess að það verður okkur öllum dýrkeypt ef við missum stjórn á henni eins og við þekkjum svo vel úr hagsögu undanfarinn áratuga.“