„Ljóst er að verðbólguhorfur hafa versnað mjög mikið. Verðbólga hefur hækkað töluvert og það má alveg búast við því að hún hækki jafnvel aðeins meira,“ segir Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, um ástæður þess að Seðlabankinn hafi ákveðið að hækka stýrivexti um heilt prósentustig.
Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 4,75%. Þeir hafa ekki verið hærri í rúm fimm ár.
Ásgeir segir það einnig ljóst að það sé veruleg ofhitnun á fasteignamarkaði, sem sé stór hluti af verðbólgunni. Það verði því að stíga föst, ákveðin skref. Auk þess hafi Seðlabankinn ákveðna skyldu við heimilin í landinu; að halda lágri verðbólgu.
„Við höfum líka þá skyldu við ungt fólk í landinu að fasteignamarkaðurinn rási ekki eitthvert út í geim. Sem gæti verið mjög slæmt þegar til framtíðar er litið,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is.
Ásgeir bendir á að Íslendingar séu öflug þjóð og það hafi oft gerst að við hlaupum hraðar en við ráðum við. Þess vegna vilji Seðlabankinn aðeins hægja á umsvifunum með því að hækka fjármagnskostnaðinn.
„Svo að þessari öflugu þjóð verði ekki fótaskortur og hlaupi hraðar en við ráðum við eins og oft hefur gerst áður. Sígandi lukka er best,“ segir Ásgeir og bætir við að það skipti heilmiklu máli fyrir heimilin í landinu að við náum að viðhalda stöðugleika.
„Þótt okkur á Íslandi hætti til að hugsa um okkur sem upphaf og endi alls, þá eru þetta sömu vandamálin alls staðar erlendis,“ segir Ásgeir og ítrekar það sem hann sagði á kynningu peningastefnunefndar bankans fyrr í dag, að hann trúi því að Seðlabankinn sé þátttakandi í alþjóðlegu átaki í að ná verðbólgu niður.
Þá benti hann á að þetta verðbólguskeið á Íslandi væri ólíkt verðbólguskeiðum síðustu áratuga. Við séum ekki í eigin heimi. „Verðbólgan er alþjóðleg. Hún er ekkert verri hér en annars staðar. Ef litið er framhjá fasteignamarkaði, þá er verðbólguhraðinn hérlendis jafnvel með því lægra sem þekkist.“
Aðspurður segir Ásgeir verðbólguna hafa aðeins komið á óvart. „Hún er meiri en við höfðum spáð. Við hefðum annars brugðist harðar við fyrr ef við hefðum trúað því hvað væri að gerast,” segir hann og bendir á að það hafi sérstaklega komið á óvart að fasteignaverð hafi haldið áfram að hækka.
Þá segir Ásgeir að þó fyrri stýrivaxtahækkanir hafi skilað töluverðu, hafi aðrir atburðir í rauninni komið í fangið á þeim.
„Það liggur alveg fyrir að við verðum að bregðast við því sem gerist. Við erum tilbúin til að berjast við það sem gerist. Ef það þarf að hækka vextina meira, þá gerum við það. Við erum ekki að fara að leyfa verðbólgu að grafa um sig aftur,“ segir Ásgeir.
Þá segir Ásgeir að stjórnvöld verði að ná betri tökum á áætlanagerð um uppbyggingu á húsnæði á Íslandi. Fasteignamarkaðurinn hafi verið í ólagi frá því að hann byrjaði að fylgjast með honum. Við höfum annað hvort verið að byggja of fáar eða of margar íbúðir.
„Það skiptir mjög miklu máli að við náum einhverri samvinnu um það, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, að tryggja að framboð á fasteignum verði í samræmi við vaxandi fólksfjölgun og fjölgun á almennum vinnumarkaði og stjórnvöld eru að vinna að því,“ segir Ásgeir.