William Sandy, frá bandaríska markaðsrannsóknarfyrirtækinu Fluent, segist hafa hugleitt það árið 2018 hvort áhugi Bandaríkjamanna á Íslandi hefði náð hámarki. Það hafi reynst öðru nær því nýjasta könnun fyrirtækisins fyrir Íslandsstofu gefur til kynna að áhuginn hafi náð nýjum hæðum, eftir tímabundna lægð í faraldrinum.
Fluent hefur unnið fyrir Íslandsstofu og forvera hennar frá árinu 1999, þegar áhuginn á Íslandi var langtum minni en hann er í dag. Sandy segir að áhuginn hafi vaxið ótrúlega mikið á milli 2020 og 2022. „Það er greinilegt að Bandaríkjamenn gleymdu ekki Íslandi í faraldrinum. Ég vona að Ísland sé búið undir aukinn fjölda bandarískra ferðamanna til landsins næstu misseri,“ segir Sandy og brosir.
Áhugi Bandaríkjamanna er kannaður annað hvert ár. Þess á milli er áhugi Kanadamanna kannaður.
Úrtakið er eitt þúsund manns á aldrinum 18-70 ára.
Sveinn Birkir Björnsson, forstöðumaður markaðssamskiptasviðs Íslandsstofu, segir aðspurður að niðurstöður rannsóknarinnar sýni glöggt að markaðsátakið Ísland saman í sókn hafi skilað árangri.
„Við höfum aldrei fjárfest meira í markaðssetningu á Íslandi en síðustu tvö ár og það er greinilega að skila sér,“ segir Sveinn og segir að almannatengsl hafi skilað mestum árangri. „Markaðsherferðirnar Icelandverse og Outhorse Your Email fengu mikla athygli hjá fréttamiðlum,“ bætir Sveinn við.
Eins og margir kannast við brá leikarinn Jörundur Ragnarsson sér í hlutverk Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook, í Icelandverse-herferðinni. Í Outhorse Your Email er kynntur sá valkostur að láta íslenska hesta svara tölvupósti fyrir sig.
„Það hefðu verið vonbrigði ef við hefðum ekki mælt neina aukningu,“ segir Sveinn um herferðirnar. „Okkur óraði þó ekki fyrir að breytingin yrði jafn mikil og raunin er. Ég hefði aldrei þorað að vonast eftir þessum tölum. Þær eru framar okkar björtustu vonum.“
Lestu ítarlegri umfjöllun í ViðskiptaMogganum.