Stjórnendur fyrirtækja í mannvirkjagerð telja að verðhækkanir á innfluttum aðföngum og tafir í aðfangakeðjunni, lóðaskortur og skortur á vinnuafli gætu heft vöxt fyrirtækjanna næstu tólf mánuði. Greinin hefur verið að taka við sér eftir tveggja ára niðursveiflu en Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að fram undan sé tímabil stöðnunar ef ekki verði gripið til réttra aðgerða vegna þessa og vísar með þeim orðum einnig til aðgerða stjórnvalda sem áhrif hafa á húsnæðismarkað.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Greining Samtaka iðnaðarins byggist á skoðanakönnun sem Outcome gerði fyrir samtökin meðal stjórnenda stórra íslenskra fyrirtækja í mannvirkjagerð og byggingariðnaði.
66% þeirra sem svara telja að skortur verði á vinnuafli. Hækkun á verði innfluttra aðfanga hefur sömu áhrif sem og tafir á afhendingu og skortur á aðföngum. Sigurður Hannesson bendir á að þetta séu þættir sem atvinnurekendur í öllum greinum glími við en segir að stóra málið fyrir byggingariðnaðinn sé lóðaskortur. 72% svarenda svara því játandi að skortur á lóðum sem tilbúnar eru til nýbygginga takmarki uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.
„Seðlabankinn hefur gripið til aðgerða til að hefta eftirspurn með hækkun stýrivaxta, lækkun hámarksveðsetningarhlutfalls fasteignalána og breyttri aðferðafræði við greiðslumat. Aðgerðirnar draga hratt úr eftirspurn. Stóra málið er hins vegar að það vantar íbúðir. Framboðið er ekki nægjanlegt og seðlabankastjóri fjallaði um það á vaxtaákvörðunarfundi í morgun [gærmorgun] að helsta ástæða vaxtahækkunar væri húsnæðisskortur, hann knýði verðbólguna en ekki lánabóla. Nefndi hann sérstaklega að skortur væri á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Nú þegar búið er að grípa til þessara aðgerða þarf að ýta framboðshliðinni af stað og það gerist ekki nema með auknu framboði lóða,“ segir Sigurður.
Hann vekur athygli á því að hækkun húsnæðisverðs hafi verið að knýja áfram verðbólguna hér á landi. Verðbólga án húsnæðisliðar sé sú næstminnsta í Evrópu. Það sýni hvað húsnæðisverðið hafi mikil áhrif. Og almenningur í landinu líði fyrir það ófremdarástand sem ríki á húsnæðismarkaði
Sigurður segir að greining SI sýni að ryðja þurfi úr vegi ýmsum hindrunum. Ekki sé allt á valdi Íslendinga sjálfra en önnur vandamál séu heimatilbúin. „Ekki verður lengur unað við það ástand sem er í húsnæðismálunum. Stjórnvöld verða að grípa til aðgerða núna, breyta skipulagi, auka framboð á lóðum og hvetja til uppbyggingar á húsnæðismarkaði til að koma jafnvægi á markaðinn. Margir koma að málum, meðal annars tugir sveitarfélaga. Við í iðnaðinum trúum ekki öðru en að þau vilji öll vera hluti af lausninni og ekki aðeins það, heldur fari þau að sýna fljótlega á spilin. Það verður að gerast strax í sumar,“ segir Sigurður og bætir við að vandinn sé ekki bundinn við höfuðborgarsvæðið, húsnæði vanti um allt land.
Hann vekur athygli á því að þessi staða hafi verið fyrirsjáanleg. Samtök iðnaðarins hafi bent á það á árinu 2019 að hún yrði uppi á árunum 2021 og 2022, ef ekkert yrði að gert. Þá hafi íbúðum í byggingu fækkað í hverjum mánuði, alveg þangað til í byrjun þessa árs. „Það kemur á óvart að ríki og sveitarfélög hafi ekki gripið til aðgerða fyrr.“