Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið fyrirskipaði í gær að allar vörur rafrettufyrirtækisins Juul skyldu teknar úr sölu í landinu, þar sem fyrirtækið þykir ekki hafa gegnt vissum öryggiskröfum eftirlitsins.
Ákvörðunin, sem Juul hefur sagst munu áfrýja, ryður brautina fyrir samkeppnisaðila til að auka hlutdeild sína á markaðinum sem Juul gnæfði áður yfir.
Fyrirtækið hefur haft um 36% hlutdeild í bandaríska rafrettumarkaðinum að undanförnu, en naut 70% hlutdeildar áður en eftirlitsstofnunin beitti sér gegn bragðtegundum í rafrettum.
Juul samþykkti í apríl að greiða 22,5 milljónir dala, eða um þrjá milljarða íslenskra króna, í skaðabætur fyrir að markaðssetja vörur sérstaklega fyrir unglinga og logið til um hversu ávanabindandi þær eru.
Á síðasta ári borgaði fyrirtækið 14,5 milljóna dala sekt í Arizona-ríki og lofaði í kjölfarið að hætta að markaðssetja fyrir ungmenni. Nokkrum mánuðum síðar greiddi Juul 40 milljóna dala sekt í Norður-Karólínu. Fyrirtækið hefur átt í svipuðum dómsmálum í Kaliforníu og New York.