Guðrún Sigríður Arnalds
„Við hófum starfsemi í miðjum heimsfaraldri og fórum mjög rólega af stað en starfsemin síðastliðið ár hefur gengið vonum framar,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, en í dag er liðið eitt ár frá fyrstu flugferð félagsins.
Jómfrúarferðin var til London 24. júní árið 2021 en nú hafa fleiri en 320.000 manns flogið með félaginu. Birgir segir að allt stefni í enn meiri vöxt í sumar. „Hins vegar var aldrei gert ráð fyrir hagnaði fyrstu mánuðina, en við sjáum fram á að skila rekstrarhagnaði, sem er auðvitað afrek.“
Hann segir að flugfélagið sé nú komið með mjög ásættanlegar nýtingartölur miðað við flugfélög um allan heim. Þótt hækkun á olíuverði hafi sett strik í reikninginn, þá gangi vel að ná þeim markmiðum sem félagið hefur sett sér. „Eitt markmið sem við viljum ná eru 15 flugvélar í notkun fyrir árið 2025. Það er allt í kortunum þar sem það gengur vel að bæta við okkur vélum.“
Annað markmið Play var að ná einingakostnaði sínum niður fyrir fjögur sent fyrir hvern farinn kílómetra. Birgir greinir frá því að stutt sé í land hvað það varðar.
„Við erum stoltust af því að vera með besta verðið á markaðinum, en það er auðvitað bara hægt með því að lækka kostnaðinn,“ segir Birgir.
Lengra viðtal við hann er að finna í Morgunblaðinu í dag, föstudag.