Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds hefur náð mikilvægum þróunaráfanga en nýjasti leikur félagsins, Starborne Frontiers er að fara í lokaða Beta prófun.
Endurgjöf spilara og gögn um notendahegðun sem munu verða til í þessum prófunum mun gera Solid Clouds kleift að auka viðveru og ánægju spilara í leiknum, að því er fram kemur í tilkynningu.
Prófanirnar munu einnig hjálpa félaginu að stilla tekjukerfi leiksins svo að áætlanir þess um meðaltekjur af hverjum spilara náist. Næsti stóri áfangi Solid Clouds er þegar leikurinn verður gefinn út.
„Við erum á góðri leið með að þróa leikinn Frontiers en hann er á leiðinni að verða einn flottasti geimleikur sem gefinn hefur verið út fyrir snjalltæki. Leikurinn hefur fengið mjög jákvæð viðbrögð hjá þeim spilurum sem hafa prófað hann. Þessum áfanga hefur verið náð með vel útfærðri áætlun og öflugu teymi,“ er haft eftir Stefáni Gunnarssyni, forstjóra Solid Clouds.