Borgarleikhúsið hefur ráðið Guðnýju Steinsdóttur til starfa sem markaðsstjóra.
Guðný er með BA próf í sálfræði og meistaragráðu í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Undanfarin ár hefur hún starfað sem markaðsstjóri Mjólkursamsölunnar og stýrði þar stefnumótun, markaðssetningu, þróun og uppbyggingu fjölda vörumerkja. Þar áður starfaði Guðný sem birtingarstjóri hjá Birtingarhúsinu og sem sérfræðingur í markaðsrannsóknum hjá PricewaterhouseCoopers, að því er segir í tilkynningu.
Guðný hóf störf hjá Borgarleikhúsinu í byrjun júní og er nú að leggja lokahönd á markaðs- og kynningarefni næsta leikárs, ásamt samstarfsfólki.