Norska orkufyrirtækið Equinor kynnti í dag verkefni þar sem á að byggja leiðslu til að flytja koltvíoxíð sem framleiddur er af iðnaðarfyrirtækjum á meginlandi Evrópu til greftrunar undan ströndum Noregs.
Ef verkefnið gengur eftir yrði um að ræða stærsta verkefni í heimi þar sem útblæstri er safnað saman svo hægt sé að grafa hann í jörðu, að því er fram kemur í umfjöllun AFP.
Fyrirtæki í þungaiðnaði líta í auknum mæli á þessa tækni sem leið til að halda áfram rekstri þrátt fyrir sífellt strangari ráðstafanir til að draga úr losun til að berjast gegn loftslagsbreytingum.
Í yfirlýsingu Equinor kemur fram að leiðslan muni hafa flutningsgetu upp á 20 til 40 milljónir tonna af koltvíoxíði á ári. Það jafngildi losun frá þremur til sex milljónum einstaklinga í Evrópu.
Belgíska fyrirtækið Fluxys mun vera með bækistöð í bænum Zeebrugge og safna saman koltvíoxíði frá skipum sem leggja að bryggju og verksmiðjum með tengdum leiðslum.
CO2 verður síðan flutt um leiðslur undir Norðursjó á vegum Equinor sem geymir hann varanlega undir hafsbotni við Noreg.
Verkefnið er enn á hagkvæmnisstigi en vonir standa til að ákvörðun um fjárfestingu verði tekin fyrir árið 2025.