„Við yrðum verr sett sem samfélag ef við ætluðum að fórna verðmætasköpun orkusækins iðnaðar til að framleiða rafeldsneyti í þágu orkuskipta,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Hann kveðst ósammála afstöðu Auðar Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, sem kom fram í Morgunblaðinu í vikunni og segir það ekki duga að forgangsraða þeirri orku sem er þegar framleidd til að mæta aukinni orkuþörf, í stað þess að fjölga virkjunum. Þá bendir hann á að Ísland hafi hagnast riíkulega á orkusæknum iðnaði.
Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, tekur undir með Sigurði og segist ósammála afstöðu Auðar Önnu til orkumála. „Athugasemdir framkvæmdastjóra Landverndar staðfesta það sem Viðskiptaráð bendir á. Það að velferð á Íslandi færi áratugi aftur í tímann ef farið yrði eftir ráðleggingum samtakanna og við myndum þá dragast aftur úr hvað varðar lífskjör miðað við samanburðarþjóðir,“ segir Jóhannes.
Hann segir þó jákvætt að fá staðfestingu á því frá Landvernd að efnahagsleg velferð mæti afgangi. Þá segir hann það ekki nægja að lífskjör standi í stað en haft var eftir Auði Önnu í Morgunblaði þriðjudagsins að Landvernd legði til að lífskjör yrðu eins og þau eru í dag að teknu tilliti til fólksfjölgunar.
Jóhannes bendir einnig á að miðað við tillögu Landverndar muni Ísland verða eftirbátur nágrannalandanna þegar kemur að lífskjörum.
Lengri umfjöllun má finna um málið í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.