Bankasýsla ríkisins greiddi LOGOS lögmannsþjónustu tæplega 6,2 milljónir króna án virðisaukaskatts á árinu, fyrir lögfræðiþjónustu og -ráðgjöf vegna sölumeðferðar 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Þar má nefna tæplega 1,5 milljónir króna án virðisaukaskatts fyrir lögfræðiálit um jafnræði við söluna.
Niðurstaða þeirrar vinnu, sem dagsett er 11. maí 2022, var sú að jafnræðis hefði verið gætt.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar sem birtist á vef Alþingis í dag.
Þar eru 6,2 milljónirnar sundurliðaðar í fjórar greiðslur frá lokum marsmánaðar til loka maímánaðar.
Í svarinu stendur einnig að ekki hafi verið leitað til LOGOS til að meta hvort sölumeðferðin stæðist reglur um jafnræði áður en salan fór fram.
Fyrsta færslan, sem stíluð er á 31. mars og hljóðar upp á 1,5 milljónir, snýr að sölunni alfarið.
Önnur færslan, að upphæð rúmum 2,8 milljónum, snýr að ráðgjöf tengdri bankaleynd, persónuvernd og skyldu til að afhenda upplýsingar, skyldum gagnvart þingnefnd og svörum við fyrirspurnum, samskiptum við Fjármálaeftirlitið, réttarstöðu gagnvart söluráðgjöfum, fréttatilkynningum og fleiru.
Þar má meðal annars nefna álit unnið af LOGOS um hvort birta ætti lista þeirra sem fengu að kaupa í útboðinu. Niðurstaða þess var að ekki ætti að birta listann en fjármálaráðherra lagði aftur á móti sjálfstætt mat á nauðsyn þess og birti lista kaupenda í kjölfarið.
Þriðja færslan, að upphæð 1.475.750 krónur, er fyrir áðurnefnda vinnu LOGOS um jafnræði kaupenda og sú fjórða og síðasta, að upphæð tæpra 400 þúsund króna, tengd samskiptum og svörum við fyrirspurnum Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins.
Í svarinu er einnig gefin upp ástæða þess að fréttatilkynning um niðurstöður LOGOS miðvikudaginn 18. maí hafi borist Morgunblaðinu á undan öðrum miðlum.
Sú ástæða hafi verið að eftirmiðdaginn 17. maí hafi verið hringt í ritstjórnir þeirra prentmiðla sem komu út morguninn eftir, þ.e. Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, og kannað hvort áhugi væri fyrir hendi á að fjalla um niðurstöður LOGOS í blöðum sem væru borin út á svipuðum tíma og fréttatilkynningin færi út.
„Ekki náðist samband símleiðis við ritstjórn Fréttablaðsins en aðili á ritstjórn Morgunblaðsins óskaði eftir að fá tilkynningu senda eftir að hafa samþykkt skilyrði um að efni hennar yrði ekki gert opinbert fyrr en tilkynning hefði verið send helstu fjölmiðlum 18. maí kl. 06.00,“ segir í svarinu.