Nettó í startholunum fyrir sölu áfengis

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samkaupa.
Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samkaupa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vefverslun Nettó ætlar ekki að feta í fótspor Heimkaupa með áfengissölu í heimsendingu. Þetta staðfestir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, í samtali við mbl.is. Öllum undirbúningi sé þó þegar lokið, til að hægt sé að hefja sölu áfengis í vefverslun.

Eins og greint hefur verið frá hófu Heimkaup að selja bjór, léttvín og annað áfengi á vefverslun sinni í gær. Þetta hefur vakið misjöfn viðbrögð innan samfélagsins. Hafa ýmsir gagnrýnt þetta og þar með talið aðrar vefverslanir.

Samkaup halda út vefverslun Nettó þar sem er hægt að kaupa ýmis matvæli.

Gunnar segir að Samkaup ætli ekki að hefja verslun áfengis í vefverslun sinni en að fyrirtækið sé í startholunum, bíði nú átekta og fylgist með hvernig lögin þróast.

Gunnar bendir þó á að fyrirtækið hafi lokið öllum undirbúningi sem þarf til að hefja svona starfsemi. 

„Allir innviðir eru búnir að vera klárir hjá okkur í svolítinn tíma og við erum tilbúin í þetta þegar að því kemur.“

Löggjöfin ekki nægilega skýr

Hann tekur fram að ástæðan fyrir því að þau hafi ekki viljað fara í þetta fyrr sé sú að löggjöfin sé ekki nægilega skýr hvað varðar sölu á áfengi með þessum hætti á Íslandi. 

„Við kappkostum að fylgja þeim lögum sem gilda á hverjum tíma sama hvort að maður sé sammála þeim eða ekki. Við höfum ekki viljað fara fram hjá einhverju kerfi þegar óvissa ríkir um hvaða réttarfarslegu áhrif það muni hafa.“

Að sögn Gunnars bjóst hann við að breyting á áfengislögunum sem myndi heimila sölu áfengis á netinu færi í gegn fyrir sumarið. Bendir hann á að nú sé komið rúmlega ár síðan að fyrsta svona netverslunin var opnuð og óvissa því búin að ríkja í talsverðan tíma. Lögunum var ekki breytt fyrir sumarið og bíður hann því enn eftir því að sjá hvernig lögin þróast.

Tvennt í stöðunni

Segir Gunnar þá tvennt vera í stöðunni upp úr þessu. 

„Annað hvort að heimila innlenda netverslun í samkeppni við erlenda netverslun eða þá að banna þetta alveg og líka fyrir erlendar netverslanir.“ Hann bætir við að hann viti ekki til þess hvernig erlendu verslununum yrði bannað það.

Hann veltir þá upp hvort hægt sé að kalla þessar verslanir erlendar.

„Þegar þú ert með kennitölu erlendis og einn posa sem tekur greiðsluna, er þetta þá erlend vefverslun þegar varan er á lager á Íslandi og er afhent á Íslandi samdægurs?“ 

Að hans mati stenst þetta ekki skoðun en um sé að ræða sérstakt álitamál fyrir aðra til að leysa úr. 

Gunnar bætir við að af svona starfsemi séu hvorki greiddir neinir skattar né gjöld á Íslandi og tekjur færist því úr landinu í staðinn fyrir að haldast innan hagkerfisins. Ríkissjóður tapi þar með á því, ef núverandi ástand fær að viðgangast.

„Þetta eru litlar upphæðir en þetta er fordæmisgefandi og skiptir því miklu máli fyrir framtíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK