Ósanngjarnt fyrirkomulag fyrir íslenskar verslanir

Eldum rétt heldur úti þjónustu þar sem einstaklingar eru í …
Eldum rétt heldur úti þjónustu þar sem einstaklingar eru í áskrift og fá rétti senda heim til sín í hverri viku. mbl.is/Hari

Eldum rétt ætlar ekki að bjóða upp á áfengi í heimsendingu eins og Heimkaup hófu að gera í gær. Þetta staðfestir Hrafnhildur Hermannsdóttur, markaðsstjóri Eldum rétt. Hún viðurkennir þó að þau hjá fyrirtækinu væru alveg til í að geta boðið upp á rauðvín með steikinni eða hvítvín með humrinum.

Eldum rétt heldur úti þjónustu þar sem einstaklingar eru í áskrift og fá rétti senda heim til sín í hverri viku.

Eins og greint var frá hófu Heimkaup að dreifa bjór, léttvíni og öðru áfengi í heimsendingu í gær. Fyrirtækið gerir þetta í gegnum danska fyrirtækið Heimkaup ApS sem selur áfengið. Hefur uppátækið vakið mis­jöfn viðbrögð. Hafa ýms­ir gagn­rýnt þetta og þar með talið aðrar vef­versl­an­ir.

Áfengissala óheimil hjá íslenskum verslunum

Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa sem rekur meðal annars verslanir Nettó, benti í samtali við mbl.is fyrr í dag á að löggjöfin væri ekki nægilega skýr og að annað hvort ætti að banna öllum áfengissölu á netinu eða leyfa íslenskum aðilum líka að selja áfengi í netverslun. 

Allt sé til reiðu hjá Nettó til að selja áfengi í gegnum vefverslun.

Hrafnhildur segir möguleikann á því að selja áfengi með matnum hafa oft verið ræddan innan fyrirtækisins. Engin ákvörðun verði þó tekin um það á meðan lagaumhverfið er eins og það er. 

„Eins og löggjöfin er í dag er okkur ekki heimilt að gera það. Við erum íslensk verslun og megum þar af leiðandi ekki selja áfengi samkvæmt íslenskum lögum.“

Tímaspursmál hvenær fleiri fylgi

Að hennar mati er það mjög undarlegt að lögin segi til um að ÁTVR megi eingöngu selja áfengi hér á landi en að erlendir aðilar komist samt upp með það. Spurð hvort henni finnist þetta ósanngjarnt fyrirkomulag svarar hún því játandi.

Segir hún það tímaspursmál hvenær fleiri verslanir og aðilar feti í fótspor Heimkaupa ef engu er breytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK