Tóku ekki þátt í útboðinu á Íslandsbanka

Haraldur Þórðarson, forstjóri og einn stofnenda Fossa.
Haraldur Þórðarson, forstjóri og einn stofnenda Fossa. Eggert Jóhannesson

Það þarf ekki að rifja upp í löngu máli þá gagnrýni sem komið hefur fram á útboð ríkisins í 22,5% hlut í Íslandsbanka sem seldur var í mars sl. Þar hefur ýmislegt verið sagt sem á ekki endilega við rök að styðjast en þó hefur komið fram málefnaleg gagnrýni á það að söluaðilar skyldu sjálfir fjárfesta í bankanum í útboðinu, og eru þeir þættir meðal annars til skoðunar hjá fjármálaeftirliti Seðlabankans. Fossar voru meðal söluráðgjafa í útboðinu. Engan starfsmann Fossa má finna á lista yfir þá aðila sem tóku þátt í útboðinu og gerður var opinber, en stuttu eftir útboðið fór sú saga á kreik að starfsmenn Fossa hefðu þó fjárfest í gegnum sjóði.

Það verður því ekki hjá því komist að spyrja Harald Þórðarson, forstjóra Fossa, um þann þátt.

„Við höfum frá upphafi lagt mikið upp úr því að haga starfsemi okkar með þeim hætti sem best gerst á heimsvísu,“ segir Haraldur í ítarlegu viðtali við ViðskiptaMoggann í gær.

„Viðskiptavinir okkar hafa val um að eiga viðskipti við Morgan Stanley, J.P. Morgan, Citi eða Fossa, þannig að við þurfum að standast þann samanburð. Þegar horft er til þess mikla fjölda innlendra og erlendra viðskiptavina sem hafa kosið að eiga ítrekað viðskipti við okkur er mér óhætt að segja að okkur hafi tekist vel til hvað þann þátt varðar. Við höfum einnig alla tíð lagt áherslu á að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í rekstri félagsins, þannig að innri reglur okkar ganga í mörgum tilvikum lengra en það regluverk sem okkur ber að starfa eftir. Til að mynda hafa starfsmenn okkar ekki heimild til að fjárfesta í einstaka fjármálagjörningum, þó þeir geti fjárfest í sjóðum þar sem aðrir taka fjárfestingarákvarðanir. Þannig að í okkar tilviki í þessu ferli, þar sem við erum meðal söluráðgjafa og erum að safna tilboðum, þá var ekki einn starfsmaður sem sótti um að fá að taka þátt, enda heimila okkar innri reglur það ekki. Það sama gildir um félagið sjálft sem og hluthafa þess.“

Haraldur segist fagna því að eftirlitsaðilar séu að skoða framkvæmd útboðsins og segir að það muni leiða í ljós hversu faglega Fossar hafi staðið að því.

„Gildi félagsins eru fagmennska, traust og árangur. Þau hafa þjónað okkur vel í gegnum árin og við tökum ekki í mál að láta af fagmennsku eða missa traust með þessum hætti sem þú vísar í, því það verður ekki endurheimt svo auðveldlega,“ segir Haraldur.

Í viðtali við ViðskiptaMogga fer Haraldur yfir starfsemi Fossa, hvaða þýðingu það hefur að fá nýtt starfsleyfi, fyrirhugaða skráningu á markað, samskipti við erlenda aðila, stöðuna í hagkerfin og fleira.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK