Mikil verðbólga síðustu mánuði hefur leitt til þess að kaupmáttur hefur lækkað en í maí var hann um 1,5% lægri en frá því í janúar, þá var hann mesti í sögunni. Síðustu tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,6%.
Laun á almenna markaðnum hækkuðu um 7% á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tímabil 2021 og laun á þeim opinbera hækkuðu um 7,5% á sama tímabili.
Launabreytingar milli þessa markaða hafa tekið að jafnast en óvenju mikið bil var á milli þeirra í byrjun árs. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.
Tvær starfstéttir skera sig úr ef litið er til launabreytinga á sama tímabili og hér fyrir ofan. Þá hafa laun verkafólks hækkað mest, um rúm 9%, og laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks næst mest eða tæp 8%.
Frá 2015 hafa laun á opinbera markaðnum hækkað tæpum fjórum prósentustigum meira en á þeim almenna.
Ef litið er til kjarasamningstímabilsins frá mars 2019 til mars 2022 þá hafa laun verkafólks og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkað í kringum 30%. Laun stjórnenda hafa hækkað minnst, um 16,1%, og laun sérfræðinga næst minnst eða um 18,1%.