Netverslun með áfengi fagnaðarefni

Bjarni Benedikstsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benedikstsson fjármálaráðherra. Kristinn Magnússon

„Ég er þeirrar skoðunar að netverslun, þar með talið með áfengi, sé fagnaðarefni og það fyrirkomulag sem við höfum haft með sölu á áfengi á Íslandi hafi dagað uppi og standist illa kröfur nútímans.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við blaðamann mbl.is.

Bjarni segir mikilvægt að hafa í huga að heimurinn hafi gerbreyst síðan áfengislöggjöfin var sett. Það sé orðið tímabært að endurskoða regluverkið og löggjöfina í kringum áfengissölu.

Segir rökin bak við ÁTVR elst illa

„Ég er alveg raunsær með það, þetta er mál þar sem skoðanir í samfélaginu eru mjög skiptar og þess vegna getur verið nauðsynlegt að undirbúa tillögugerð mjög vandlega. En mér líður eins og það sé löngu tímabært að þessi umræða sé tekin af meiri þunga.“

Spurður um áfengi í búðir segist hann hafa stutt tillögur um það á sínum tíma, þá varðandi sölu á léttvíni og öli eftir atvikum, en honum finnist það of einangrað atriði.

„Við þurfum að spyrja okkur hvaða heildarbreytingar á þessu fyrirkomulagi viljum við sjá. Mér þætti það í sjálfu sér jákvæð breyting. En það er ekki þar með sagt að öllum álitamálum væri svarað með því einu og sér.“

„Í mínum huga hafa rökin á bak við sérstaka opinbera áfengissölu elst illa,“ segir Bjarni.

Ríkissjóður verði ekki af tekjum

Aðspurður segir Bjarni ríkissjóð ekki verða af tekjum vegna erlendra netverslana með áfengi, vegna áfengisgjaldsins, en hins vegar verði ÁTVR af smásöluálagningu.

„Það dregur fram þá staðreynd að við erum í sjálfu sér, í gegnum ÁTVR, að niðurgreiða ákveðið þjónustustig í landinu. Þess vegna hafa netverslanir geta boðið upp á ódýrara áfengi í sumum tilvikum,“ segir Bjarni og bætir því við að það sé mikilvægt ef breytingar verða gerðar á áfengislöggjöfinni að huga að því að skerða ekki vöruúrval hjá fólki sem býr á landsbyggðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK