Skiptafundur þrotabús bakarískeðjunnar Hjá Jóa Fel-brauð/kökulist ehf. fór fram í vikunni en búið var tekið til gjaldþrotaskipta í september 2020.
Arnar Þór Stefánsson skiptastjóri segir í samtali við Morgunblaðið að skiptum hafi verið lokið á fundinum og að kröfur í búið hafi numið 333 milljónum króna. Þar af hafi samþykktar kröfur verið 141 milljón.
Alls greiddust 19,8 milljónir króna upp í samþykktar kröfur eða 14,1% að sögn Arnars Þórs.
„Það fengust fjármunir fyrir rekstur, lausafé, tæki og tól og einnig innheimtust einhverjar útistandandi kröfur. Þá fundust inneignir á bankareikningum og skattgreiðsla í ríkissjóð fékkst endurgreidd,“ segir hann.
Spurður um helstu kröfuhafa segir Arnar að það hafi einkum verið starfsmenn með launakröfur og lífeyrissjóðir.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu á sínum tíma krafðist Lífeyrissjóður verslunarmanna gjaldþrotaskiptanna vegna vangoldinna iðgjalda sem fyrirtækið hafði innheimt af launum starfsfólks en ekki skilað til sjóðsins.