Kemi ehf. hefur náð samkomulagi um kaup á rekstri Poulsen ehf. Kaupsamningur var undirritaður 1. júlí og mun Kemi taka við starfsemi Poulsen 1. september. Kontakt fyrirtækjaráðgjöf var ráðgjafi seljanda og Lex Lögmannstofa vann málið fyrir hönd kaupenda, að því er segir í tilkynningu.
Poulsen rekur verslun með varahluti, bílalakk og aðrar tengdar vörur í Skeifunni 2. Einnig er fyrirtækið umsvifamikið í innflutning á bílrúðum og rekur fyrirtækið 2 verkstæði fyrir ísetningar bæði á Grensásvegi og á Hyrjarhöfða. Hjá Poulsen starfa tæplega 30 starfsmenn og verður þeim öllum boðið að starfa áfram hjá nýjum eigendum.
Saga Poulsen nær allt aftur til ársins 1910 þegar Valdimar Poulsen, danskur járnsteypumeistari hóf innflutning á vörum og opnaði síðar smásöluverslun. Frá árinu 2001 hefur Poulsen verið í eigu Matthíasar Helgasonar og barna hans. Ragnar Matthíasson hefur starfað sem framkvæmdastjóri félagsins síðustu áratugi og Lovísa Matthíasdóttir hefur verið fjármálastjóri þann tíma. Öll systkinin hafa komið að rekstri félagsins í lengri eða skemmri tíma, segir einnig í tilkynningu.
Matthías og fjölskylda hans stofnuðu og ráku fyrirtækið Bílanaust í tæp 40 ár en seldu það árið 1999. Kaupandi var Hermann S. Guðmundsson framkvæmdastjóri Kemi, ásamt meðfjárfestum.
Kemi rekur verslun og vöruhús við Tunguháls 10 í Reykjavík. Hjá félaginu starfa 20 starfsmenn og helstu vöruflokkar eru smurolía og smurefni, bílavarahlutir, efnavörur, öryggis- og landbúnaðarvörur. Fyrirtækið var stofnað árið 1994 en komst árið 2014 í hönd núverandi eiganda en stærstu hluthafar Kemi eru Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri félagsins og Bjarni Ármannsson. Rekstur Kemi hefur vaxið mjög hratt á undanförnum árum. Árið 2019 voru rekstrartekjur félagins 572 m.kr., en 1.248 m.kr. árið 2021.
Rekstrartekjur Poulsen voru rúmar 1.300 m.kr. árið 2021. Samanlögð velta félaganna það árið eru því rúmir 2,5 milljarðar.
Kaupsamningur var undirritaður þann 1. júlí á skrifstofu Lex Lögmannsstofu í Borgartúni 26.Sú staðsetning er táknræn fyrir þær sakir að þar stóðu höfuðstöðvar Bílanausts til áratuga og þar störfuðu í mörg ár allir seljendur og Hermann Guðmundsson sem var framkvæmdastóri þess félags frá 2002 – 2006, segir ennfremur í tilkynningunni.