Gæti valdið breytingum á vöruúrvali ÁTVR

Álagning ÁTVR er fyrirfram ákveðin og hlutfallsleg.
Álagning ÁTVR er fyrirfram ákveðin og hlutfallsleg. mbl.is/Unnur Karen

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins mun halda sínu striki uns fyrirmæli annars efnis berast frá fjármálaráðuneytinu. Er þetta þrátt fyrir nýlega niðurstöðu héraðsdóms um að reglugerð sú, sem lögð er til grundvallar við ákvörðun vöruúrvals, sé ólögmæt. 

Þetta staðfestir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, í samtali við mbl.is. Dómur féll í máli Dista heildverslunar gegn ÁTVR á fimmtudag í síðustu viku, þar sem fallist var á með Dista að reglugerð sem ÁTVR vinnur eftir væri ólögmæt. 

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR. Ljósmynd/atvr.is/Vigfús Birgisson

Hvernig er best að meta eftirspurn?

Lög um ÁTVR kveða á um að vöruúrval skuli taka mið af eftirspurn. Með reglugerð hefur svo verið nánar útfærð sú aðferð sem beita skal við ákvörðun eftirspurnar, og er þar miðað við framlegð vörunnar. Þannig raðast þær vörutegundir sem skila mestri framlegð, efst á lista og aðrar þurfa að víkja úr hillum verslana ÁTVR. 

„Í grunninn er þetta þannig að frá árinu 1999 hefur þessari aðferð verið beitt og ágreiningurinn lýtur að því hvort framlegð sé rétt aðferð við að mæla eftirspurnina. Dista vildi meina að það ætti frekar að miða við lítra,“ segir Sigrún Ósk.

Tvær bjórtegundir sem Dista flytur inn, Faxe Wit­bier og Faxe IPA í hálfs­lítra dós­um, voru teknar út úr vöruúrvali ÁTVR á grundvelli þess að þær skiluðu ekki nægilegri framlegð. Væri miðað við selda lítra, hefðu þær tegundir tvímælalaust haldið sæti sínu. 

Álagning ÁTVR er fyrirfram ákveðin og hlutfallsleg. Því standa dýrari vörur betur að vígi en þær ódýrari, þegar kemur að því að skila hærri framlegð. ÁTVR skiptir vöruúrvalinu sínu þó í mismunandi flokka þar sem miðað er við ákveðinn fjölda vörutegunda í hverjum flokki og tekur samanburðurinn mið af því. 

Dista flytur inn bjór frá danska framleiðandanum Faxe, en tegundirnar …
Dista flytur inn bjór frá danska framleiðandanum Faxe, en tegundirnar Faxe Wit­bier og Faxe IPA voru ekki taldar skila nægilegri framlegð.

ÁTVR heldur sínu striki 

Ákvörðun um áfrýjun liggur hjá ríkislögmanni, enda var málið höfðað gegn fjármálaráðuneytinu, að sögn Sigrúnar. Það er verið að fara yfir málið en á meðan hefur dómurinn ekki áhrif á vinnubrögð ÁTVR. 

„Þeir hafa nokkra daga til að meta þetta, verði áfrýjað þarf væntanlega að bíða eftir niðurstöðu Landsréttar en verði ekki áfrýjað þá hlýtur ráðuneytið að endurskoða reglugerðina.“

Dýrari vara myndi víkja fyrir ódýrari

Væri reglugerðinni breytt þannig að seldir lítrar væru lagðir til grundvallar við mat á eftirspurn vöru, hefði það í för með sér breytingar á vöruúrvali ÁTVR. Sigrún telur þó ekki að um kúvendingu væri að ræða, enda fari framlegð og seldir lítrar oft saman. 

Það hefur þó ekki enn verið reiknað út hvaða vörutegundir dyttu út. „Það væri kannski helst einhver ódýrari vara sem væri seld í meira magni, sem héldi sæti á kostnað dýrari vöru sem seld er í minna magni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK