Tillaga um að breyta nafni Festar í Sundrungu

Hluthafafundur Festar er í næstu viku.
Hluthafafundur Festar er í næstu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Hluthafafundur Festar fer fram á fimmtudaginn í næstu viku, en stjórn félagsins boðaði til nýs hluthafafundar eftir óánægju hluta hluthafa félagsins með uppsögn Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra félagsins um daginn.

Upphaflega var aðeins stjórnarkjör á dagskrá, en samkvæmt dagskrá fundarins sem send var út í gær kemur fram að einnig hafi borist tillaga um breytingu á samþykktum félagsins sem feli í sér að nafni félagsins verði breytt í Sundrung.

Ekki kemur fram hver standi á bak við tillöguna, en sem fyrr segir var óánægja meðal hluta eigenda félagsins þegar Eggerti var sagt upp. Var upphaflega greint frá því að Eggert hefði sjálfur sagt starfi sínu lausu, en eins og Morgunblaðið greindi síðar frá kom frumkvæðið ekki frá Eggerti sjálfum og var það síðar staðfest af stjórn félagsins með tilkynningu til Kauphallarinnar.

Greindi Morgunblaðið jafnframt frá því í síðasta mánuði að ekki hafi verið eining innan stjórnarinnar með uppsögnina, en að þau Guðjón Reyn­is­son og Mar­grét Guðmunds­dótt­ir, formaður og vara­formaður stjórn­ar, hafi fylgt mál­inu eft­ir af festu.

Uppsögn Eggerts komst í hámæli í síðasta mánuði, meðal annars vegna þess að Vítalía Lazareva kvað sig eiga Eggerti mikið að þakka og að hann hafi hlustað á sína hlið í tengslum við ásakanir sem hún setti fram um að hópur manna hefði brotið á henni kynferðislega í heitum potti. Varð það meðal annars til þess að Þórður Már Jóhannesson, þáverandi stjórnarformaður félagsins sagði af sér, en auk þess var Hreggviður Jónsson, einn stærsti einkafjárfestir í Festi, meðal þeirra sem Vítalía vísaði til.

Guðjón var í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag og sagði þar meðal annars að segja mætti að framtíðarsýn forstjóra og stjórnar hafi ekki farið saman. Guðjón hefur þó áður sagt við Morgunblaðið að hvorki Hreggviður né Þórður hafi haft einhver afskipti af félaginu eða stjórn þess.

Níu manns hafa verið tilnefnd í stjórn félagsins, öll núverandi stjórn auk fjögurra nýrra, meðal annars Björgólf­ur Jó­hanns­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Icelanda­ir og fyrr­ver­andi for­stjóri Sam­herja, Magnús Júlí­us­son, aðstoðarmaður Áslaug­ar Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra og stofn­andi Íslenskr­ar orkumiðlun­ar

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK