N1 Rafmagn ehf. var með lægsta tilboðið í raforkukaup fyrir allar stofnanir og götulýsingu Reykjavíkurborgar, en tilboðin voru birt á vef borgarinnar á dögunum. N1 bauð 5,65 krónur á hverja kílóvattsstund fyrir almenna notkun en 5,35 krónur fyrir götulýsingu. Það þýðir að N1 er tilbúið að veita þjónustuna fyrir samtals 257,5 milljónir króna á ári, en samið er til þriggja ára.
Tilboð N1 rafmagns var 115,31% og 115,05% af kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á 4,90 krónur fyrir almenna notkun og 4,65 krónur fyrir götulýsingu.
Þrátt fyrir að tilboðin hafi verið yfir kostnaðaráætlun þá er samanlagt tilboð lægstbjóðanda tæplega 20% undir núverandi orkuverði, að því er Guðjón L. Sigurðsson, ljósvistarhönnuður og höfundur útboðslýsingarinnar, segir í samtali við ViðskiptaMoggann.
Guðjón segir einnig að samtals sé um að ræða innkaup á um 46 GWh sem sé langstærsta útboð á raforku á almennum markaði hingað til.
Hingað til hefur Reykjavíkurborg keypt rafmagn af Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, sem er í eigu Reykjavíkurborgar.
Aðrir bjóðendur voru Orkusalan ehf., Orka náttúrunnar og Straumlind ehf.
Tilkynnt verður hvaða fyrirtæki hlýtur samninginn eftir fund innkauparáðs Reykjavíkur þann 15. júlí nk.
Lestu ítarlegri umfjöllun í ViðskiptaMogganum í dag.