Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Lucinity hefur tryggt sér 17,3 milljóna dollara fjármagn, eða um 2,4 milljarða króna.
Nýir fjárfestar eru hollenski fjárfestingarsjóðurinn Keen Venture Parners, Venturing, sem er einnig frá Hollandi og Experian, sem er eitt stærsta kreditfyrirtæki heims. Einnig leggja fyrri fjárfestar, Crowberry Capital, Karma Ventures og byFounders fram fjármagn.
Lucinity býr til gervigreindarhugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum í baráttunni gegn peningaþvætti.
„Í fyrsta lagi er þetta svakaleg viðurkenning á því sem við erum búnir að vera að gera. Við erum búnir að byggja upp fyrirtæki á þremur og hálfu ári frá einum upp í 65 manns. Tekjuvöxturinn er búinn að vera mjög góður á sama tíma,“ segir forstjórinn Guðmundur Rúnar Kristjánsson, spurður hvaða þýðingu það hefur að fá þetta fjármagn inn í fyrirtækið.
Guðmundur Rúnar bætir við að þetta sé einnig mikil viðurkenning á framtíðarmöguleikum þeirrar tækni sem fyrirtækið er búið að byggja upp til að gera varnir gegn peningaþvætti árangursríkari.
Hann segir það til að mynda mikinn heiður að Experian hafi ákveðið að styðja við bakið á Lucinity. Fyrirtækin tvö fóru í samstarf fyrir þremur mánuðum sem snýst um upplýsingatækni og notkun gagna.
Spurður út í framtíðina segir hann áhersluna áfram vera á uppbyggingu á Íslandi, enda er þróunarteymi fyrirtækisins staðsett hér.
„Það er frábær kraftur í fólkinu okkar og það er tekið eftir því víða að við erum með mjög öflugt fólk,“ svarar hann. Einnig nefnir hann að Lucinity hafi fjárfest mikið í sölu- og markaðsteymum í Bretlandi. Næsta skref er að fara inn á aðra markaði, til dæmis í Skandinavíu og Bandaríkjunum.
Danski fjártæknirisinn Pleo keypti jafnframt lausnina frá Lucinity fyrr á árinu og hefur hann lýst yfir mikilli ánægju með fyrirtækið.
Er gengi ykkar framar vonum?
„Það er samkvæmt mínum vonum en framar vonum allra annarra,“ segir Guðmundur og hlær.