Þorgerður Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, segir veltu fyrstu 6 mánaða ársins hafa verið 14% minni en 2019. Veltan í júní hafi hins vegar verið sú sama á nafnvirði og í júní árið 2019.
Fram kom í Morgunblaðinu 7. júlí að 692 þús. farþegar hafi farið um Keflavíkurflugvöll í júní, samkvæmt bráðabirgðatölum Isavia, eða 88% af fjöldanum í júní 2019. Því vekur athygli að velta Fríhafnarinnar í júní hafi verið jafn mikil og í júní 2019, á nafnvirði.
Spurð hvað skýri það bendir Þorgerður á breytta samsetningu flugfarþega en hlutfallslega færri tengifarþegar komi nú en 2019. Hins vegar hafi komið hlutfallslega fleiri íslenskir ferðamenn og erlendir komufarþegar en 2019. Þessu fylgi aukin viðskipti. Íslendingar versli hlutfallslega mest í Fríhöfninni en það sé í takt við verslun í erlendum fríhöfnum. Heimamenn versli mest.
Þorgerður segir erlenda ferðamenn gjarnan kaupa íslenskar vörur til gjafa, þvert á vöruflokka. Hún segir eftirspurnina standa undir auknu framboði af íslenskum vörum í Fríhöfninni en salan sé mikil.