Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja segir að viðvarandi spenna á íslenskum vinnumarkaði sé veikleiki í hagstjórn landsins.
„Í þau 40 ár sem ég hef starfað sem hagfræðingur þá hefur vinnumarkaðurinn alltaf verið veikleiki í okkar efnahagsstjórn, þ.e. að hann búi til skynsamar launahækkanir sem fást staðist án þess að valda álagi á hagkerfið.“
Yngvi Örn var gestur Dagmála í liðinni viku.
Segir hann að samningsstaða launþega sé afar sterk og að þá hafi stjórnmálamenn í gegnum tíðina lagt meiri áherslu á að vinna gegn atvinnuleysi en verðbólgu.
„Vinnumarkaðurinn er þess eðlis að þeir sem eru ofar í tekjustiganum hafa það sterka samningsstöðu að þeir geta knúið fram sambærilegar prósentuhækkanir og þær sem láglaunahóparnir eru að fá. Það er meinið og liggur í uppbyggingu íslensks vinnumarkaðar og sem sennilega stafar af því að mínu mati að það er svo auðvelt að skipta um starf. Það hefur verið viðvarandi spenna á vinnumarkaðnum og oft skortur á vinnuafli. Við keyrum alltaf hagkerfið í áttina að fullri atvinnu. Í gamla daga sögðumst við vera að stýra til að halda aftur af verðbólgunni en í raun og veru voru stjórnmálamenn að keyra kerfið í átt að því að það væri full atvinna. Við Íslendingar erum mjög viðkvæmir fyrir atvinnuleysi. Það fer allt í gang á þessu landi, það er rokið til og byggð álver og kísilver og allskonar dót ef það örlar á atvinnuleysi.“
Hann segir að þá hafi það einnig áhrif að hér á landi flytji fólk nánast öll áunnin réttindi með sér þegar það skiptir um starfsvettvang. Þá hafi sú regla aldrei verið við lýði hér eins og á öðrum Norðurlöndum um að sá sem síðastur var ráðinn inn til fyrirtækis njóti minnsta starfsöryggisins.
„Það þýðir að það er útlánaminna fyrir fólk að hóta því að skipta um vinnustað ef það fær ekki sínar launahækkanir. Þær sérstöku launahækkanir sem það vill fá.“
Segir Yngvi Örn að ekki hafi tekist að innleiða norræna vinnumarkaðsmódelið um miðjan síðasta áratug og því séum við í sömu stöðu og áður í þessum efnum.
Viðtalið við Ynga Örn má sjá hér fyrir neðan: