Nýskráð einkahlutafélög í júní voru 225, eða 13% færri en í sama mánuði í fyrra. Þegar horft er á heildarfjölda nýskráninga það sem af er ári nema þær 1.577 á móti 1.735 á sama tíma í fyrra og eru því um 9,1% færri. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.
Í júní í ár fjölgaði milli ára nýskráðum einkahlutafélögum í fasteignaviðskiptum úr 22 í 36, en í smávöruverslun fækkaði þeim úr 34 í 22. Þá fækkaði þeim einnig í framleiðslu úr 15 í 4 og í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð úr 52 niður í 42.
Þrátt fyrir færri nýskráningar einkahlutafélaga á þessu ári miðað við síðasta ár er fjöldinn þó enn nokkru meiri en hann var á sama tíma árin 2018, 2019 og 2020. Voru nýskráningar á fyrri hluta þessara ára 1.238 árið 2018, 1.239 árið 2019 og 1.107 árið 2020.