Gengi evrunnar og Bandaríkjadals var í stuttan tíma í dag það sama, en það er í fyrsta skiptið í um 20 ár sem það gerist. Hefur gengi evrunnar lækkað talsvert undanfarna daga og vikur, meðal annars eftir að Rússland stöðvaði gasflutninga til Evrópu í gegnum Nord Stream-gasleiðsluna.
Gengi gjaldmiðlanna tveggja var nákvæmlega 1 á móti 1 í stutta stund áður en gengi evru hækkaði á ný. Þetta er lægsta gengi evru gagnvart Bandaríkjadal síðan í desember 2002.
Á sama tíma hefur olíuverð lækkað skarpt í dag í kjölfar áhyggja fjárfesta af frekari efnahagsþrengingum samhliða hækkandi vaxtastigi seðlabanka í viðleitni þeirra að berjast gegn hárri verðbólgu beggja vegna Atlantshafsins. Hlutabréfamarkaðir bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hafa lækkað það sem af er degi.
Hægt er að fylgjast með gengi gjaldmiðla hér.