Verð á flugmiðun mun „án efa“ hækka samhliða eldsneytiskostnaði, að sögn Willie Walsh, forstjóra Alþjóðasambands flugfélaga (IATA).
Olíuverð hefur hækkað í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu og segir Walsh að kostnaðinum verði velt yfir á neytendur.
Ferðalangar þurfa að búa sig undir það að kostnaður við flug muni hækka, sagði Walsh í sjónvarpsþættinum Sunday Morning á BBC.
„Flug verður dýrara fyrir neytendur, án efa,“ sagði hann og bætti við að „hátt verð á olíu“ muni „endurspeglast í miðaverði“. Hann benti á að eldsneytisverð væri stærsti þátturinn í kostnaði flugfélags.
Bandaríkin hafa tilkynnt um algjört bann við olíuinnflutningi frá Rússlandi. Bretland og Evrópusambandið hafa sagst ætla að loka að mestu fyrir innflutning rússneskrar olíu fyrir lok árs.
Þetta gerir það að verkum að spurn eftir olíu frá öðrum framleiðendum hefur aukist, sem hefur leitt til hærra verðs.