Myndlistarmaðurinn Tolli Morthens segist í ítarlegu samtali við ViðskiptaMoggann ekki hafa hækkað verð á listaverkum sínum síðan árið 2008.
„Ég hækkaði verðið árið 2008 en fann um leið að það ískraði í glerþakinu. Ég sá að ég var búinn að verðleggja mig út úr millistéttinni að miklu leyti. Verkin voru orðin dálítið dýr og ég fékk smá kvíðakast. En svo bara bíður maður eftir því að kaupmáttarþróunin leiðrétti þetta. Nú er verðbólga og mikill kaupmáttur og verðið orðið viðráðanlegt fyrir vel flesta.“
Tolli notast við fermetraverð þegar hann verðleggur myndirnar. Hann segir það gert til að hafa samræmi og það sé sanngjarnt gagnvart viðskiptavinunum. Hann kveðst hafa passað sig á því í gegnum tíðina að setja ekki sjálfsvirðinguna í verðlagninguna. „Ég sel myndirnar á því verði sem ég get selt þær á.“
Eins og Tolli bendir réttilega á mun hann missa alla stjórn á verðlagningunni eftir sinn dag. „Þegar eftirmarkaður tekur yfir þá skipta stærðirnar ekki máli. Þá eru það gæði einstakra verka sem öllu máli skipta. Lítil mynd getur verið dýr gullmoli á meðan stór mynd verður kannski talin tilheyra döpru tímabili á ferli listamannsins.“
Tolli segir að verk eftir hann gangi kaupum og sölum í samfélaginu. Þau séu gjaldmiðill í bílaviðskiptum og fasteignakaupum m.a. „Verðgildið hefur haldið sér vel í gegnum árin.“
Ítarlegra viðtal má lesa í ViðskiptaMogganum í dag.