Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,5% milli júní og júlí. Gangi spáin eftir fer ársverðbólga upp í 9,2%, en hún mældist 8,8% í júní.
Þá er von á að verðbólga fari hæst í 9,5% í ágúst áður en hún lækkar aftur.
Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans.
Spáð er að fjórir undirliðir muni hafa mest áhrif á verðbólgu núna, það eru: matur og drykkjarvara, reiknuð húsaleiga, föt og skór og flugfargjöld til útlanda. Föt og skór munu hafa áhrif til lækkunar vegna sumarútsala en hinir þrír liðirnir til hækkunar.
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 3,0% milli mánaða í maí og vísitala markaðsverðs húsnæðis, sem Hagstofan notar við útreikning á reiknaðri húsaleigu, hækkaði um 3,2% í júní.
Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að það fari að hægjast um á markaðinum. Kemur fram að áorðnar vaxtahækkanir geri það að verkum að fólk geti ekki tekið jafn há lán og áður miðað við sömu greiðslugetu.
Samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði dregist saman og meðalsölutími íbúða er að aukast. Tekið er fram að það taki samt sem áður tíma fyrir slíkar breytingar að koma fram í reiknaðri húsaleigu, meðal annars vegna þess að Hagstofan notast við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal fasteignaverðs.
Alls er von á að reiknuð húsaleiga hækki um 2,1% milli mánaða núna í júlí.
Matarkarfan hækkaði minna milli mánaða í júní og spáir hagfræðideildin að hún muni hækka enn frekar í júlí, eða um 0,7%. Miklar verðhækkanir erlendis hafa áhrif á það sem og að mikill eftirspurnarþrýstingur er hér á landi, meðal annars vegna vaxandi straums erlendra ferðamanna til landsins.
Jafnframt er gert ráð fyrir að flugmiðinn til útlanda hækki miðað við 2019 frá og með júlí vegna hærri eldsneytiskostnaðar og aukinnar eftirspurnar, en það sem af er ári hefur verð á flugfargjöldum til útlanda fylgt verðinu frá 2019 mjög vel eftir. Gert er ráð fyrir því að flugfargjöldin hækki um 8,3% milli mánaða í júlí.