Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, varð í hádeginu fyrst til þess að kaupa bjór beint frá brugghúsinu Smiðjunni í Vík í Mýrdal.
Smiðjan var fyrsta brugghús landsins sem fékk í hendurnar leyfi til þess að selja bjór á framleiðslustað í samræmi við breytt lög um smásölu áfengis.
„Þetta er stórmerkilegur dagur. Það hefur verið óleyfilegt í 110 ár að annað en ríkið geti selt almenningi áfengi og fyrir okkur er þetta stórt skref,“ segir Sveinn Sigurðsson, einn stofnenda Smiðjunnar.
Spurður segir hann að Áslaugu Örnu hafi verið boðið á viðburðinn vegna þess að hún hafi verið sú fyrsta til að leggja fram frumvarp um breytingu á smásölu áfengis.
„Hún hefur stutt mikið við okkur og verið jákvæð í garð okkar,“ segir Sveinn en bjórinn sem hún keypti ber heitið „Er of snemmt að fá sér?“