Mikilvægt að það skapist friður um félagið

Guðjón Reynisson stjórnarformaður Festar.
Guðjón Reynisson stjórnarformaður Festar. mbl.is/Árni Sæberg

Ný stjórn Festar var kosin nú fyrr í dag. Þrír nýir komu inn í stjórnina en Guðjón Reynisson, stjórnarformaður félagsins, og Margrét Guðmundsdóttir, fyrrverandi varaformaður stjórnar, héldu sínu sæti.

Guðjón Reynisson verður áfram stjórnarformaður en Sigurlína Ingvarsdóttir mun taka við sæti varaformanns stjórnar.

Guðjón sagði í samtali við mbl.is eftir fundinn að honum litist vel á stjórnina og hann sé virkilega spenntur að byrja vinna með henni.

Orðspor félagsins lagað með góðri vinnu

„Það sem skiptir mestu máli er að það skapast friður um félagið og nú getum við farið að snúa okkar að vinnunni aftur,“ sagði Guðjón og bætti við að þátttakan á fundinum hafi verið ánægjuleg en fulltrúar fyrir 92% af hlutahöfum sátu fundinn.

Inntur eftir því hvort væringar innan félagsins vegna uppsagnar forstjóra Festar og tengsl fyrrum stjórnamanna við Vítalíu-málið hafi skaðað orðspor félagsins til frambúðar svaraði Guðjón því neitandi og sagði að það verði lagað með góðri vinnu.

Staða Eggerts óljós

Guðjón vildi ekki tjá sig um stöðu Eggerts Þórs Kristóferssonar, fráfarandi forstjóra Festar, og hvort stjórnin myndi skoða að ráða hann að nýju.

Aðspurð sagði Sigurlína það of snemmt að segja til um áherslubreytingar, nú sé nýja stjórnin að stilla saman strengjum og átta sig á stöðunni.

Festi rekur meðal annars N1, Krónuna og Elko.
Festi rekur meðal annars N1, Krónuna og Elko. Árni Sæberg

Hvenær má búast við nýjum forstjóra?

„Það tekur alltaf talsverðan tíma að ráða réttu manneskjuna í starfið og við munum vanda vinnubrögðin mjög vel við það en við vonumst til þess að geta gefið út auglýsingu innan nokkra vikna.“

Margrét Guðmundsdóttir, fyrrverandi varaformaður stjórnar, fékk afgerandi stuðning í stjórnarkosningunni og var þar efst með 18,2% atkvæða. Guðjón Reynisson hlaut 13,6% atkvæða í kosningunni.

Aðspurður sagði hann það ánægjulegt að sjá hvað hún fékk mikinn stuðning í kosningunni en ekki fékkst skýrt svar hvers vegna hún tók ekki við stjórnarformannssætinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK