Hlé hefur verið gert á samningaviðræðum skandinavíska flugfélagsins SAS og flugmanna félagsins. Viðræður stóðu yfir í 33 klukkustundir.
„Nú getum við ekki meir, við erum dauðþreytt og verðum að hvíla okkur. Við getum ekki hugsað lengur,“ sagði Jan Levi Skogvang, formaður SAS í Noregi, og bætti við að viðræðum verði haldið áfram á morgun.
Samningaviðræður stóðu yfir frá því klukkan tíu í gærmorgun, en þrettándi dagur verkfalls flugmannanna hófst í dag.
Á vef Aftonbladet kemur fram að SAS vilji skrifa undir kjarasamning til tíu ára, en flugmennirnir vilji sex ára samning. Á meðan samningurinn er í gildi verði flugmönnum ekki heimilt að fara í verkfall.
„Það er afar óvenjulegt að vinnuveitandi í Skandinavíu krefjist tíu ára samnings. Þetta er eitthvað sem verkalýðshreyfingin í Noregi hefur brugðist hart við,“ sagði Roger Klokset, formaður norska flugmannasambandsins.
„Þetta er alveg hræðilega sorglegt. Við höfum alltaf sagt að þetta sé óþarfa ágreiningur sem hefði verið hægt að leysa án átaka. Okkur finnst SAS hafa dregið okkur inn í átökin og halda okkur í átökunum.“
„Mörg okkar eru þreytt og það gæti hafa leitt til óþarfa pirrings,“ sagði Claes Strath sáttasemjari um stemninguna á milli aðila.
Strath vildi þó ekki gefa upp hvaða hnúta ekki tókst að leysa. „Það eru mörg mikilvæg atriði sem þarf til að ná samkomulagi.“