Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, telur áhyggjur af verðbólgu farnar að hafa áhrif á væntingar almennings í efnahagsmálum.
Væntingavísitala Gallup var 93,6 stig í júní, en var 93,3 stig í maí síðastliðnum, og hefur hún ekki verið jafn lág síðan í árslok 2020.
Versnandi verðlagshorfur
Andrés bendir á nýja verðbólguspá Landsbankans en samkvæmt henni verður 9,2% verðbólga í júlí og 9,5% verðbólga í ágúst. Það er mikil hækkun milli ára en 4,3% verðbólga var í júlí og ágúst í fyrra.
„Verðlagshorfur verða sífellt svartari. Verðbólguspá Landsbankans fyrir júlí og ágúst er sú hæsta sem hefur birst. Drífa Snædal, forseti ASÍ, hefur réttilega bent á vægi innfluttrar verðbólgu í þessu efni. Þá er aðfangakeðjan enn að hiksta hvert sem litið er og það heldur áfram að hafa áhrif á framboð vöru og þar með verðlag. Það er segin saga að svona svartsýnisspár hafa bein áhrif á væntingar fólks.
Það er ekkert sem bendir til að staðan í heimshagkerfinu muni fara batnandi. Fyrir mánuði sótti ég aðalfund Evrópusamtaka verslunarinnar (EuroCommerce) og á þeim tuttugu árum síðan ég hóf að sækja þá fundi hef ég ekki upplifað jafn mikla svartsýni í smásölu- og heildsölugeiranum í Evrópu. Við áðurnefnda þætti bætist orkukreppan í Evrópu,“ segir Andrés.
Hefur verið mæld frá 2001
Gallup hefur frá mars 2001 mælt væntingavísitöluna mánaðarlega. Einstaklingar 18 ára og eldri eru spurðir fimm spurninga: Annars vegar um mat á núverandi efnahagsaðstæðum og hins vegar um væntingar til efnahagslífsins.
Ef vísitalan er yfir 100 stigum eru fleiri jákvæðir en neikvæðir um horfurnar.