Enn mælist mikil hækkun íbúðaverðs

Enn hafa ekki komið í ljós marktæk merki um kólnun …
Enn hafa ekki komið í ljós marktæk merki um kólnun á fasteignamarkaðnum. mbl.is/Árni Sæberg

Íbúðaverð hækkaði meira á milli maí og júní en hagfræðideild Landsbankans átti von á en á tímabilinu hækkaði verðið um 2,2%. „Vísbendingar höfðu borist um rólegri markað þó það sjáist ekki enn í tölum um verðþróun,“ segir í Hagsjá deildarinnar. 

Við þetta bætir aðeins í verðbólguspánna fyrir júlímánuð en hún færist við þetta úr 9,2% í 9,3%. 

Verð á fjölbýli hækkaði meira en verð á sérbýli á tímabilinu. Hækkunin á fjölbýli var 2,6% en 0,8% á sérbýli. 

„Á síðustu mánuðum hefur sérbýli hækkað á bilinu 2-4% milli mánaða og er hækkunin á sérbýli því mun hófstilltari nú. Hækkunin á fjölbýli er aftur á móti nokkurn veginn í takt við þróunina síðustu mánuði og ekki að sjá að markaðurinn þar sé farinn að sýna marktæk merki kólnunar,“ segir í Hagsjánni. 

Sölutíminn hefur ekki lengst jafn mikið síðan árið 2018

Árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mælist 25%, 24,5% hvað sérbýli varðar en 25,1% ef litið er til fjölbýlis. 

„Í síðustu viku birti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skýrslu þar sem fram kom að meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefði lengst, var 35 dagar í apríl en lengdist í 46 daga í maí. Sölutími hefur ekki lengst svo mikið milli mánaða síðan í ársbyrjun 2018, en þá fór verulega að hægja á verðhækkunum eftir langt tímabil mikilla verðhækkana,“ segir í Hagsjánni.

Ýmsar vísbendingar um að ró sé að færast yfir

Hagfræðideild Landsbankans gaf í síðustu viku út spá um 0,5% hækkun á neysluverðs á milli mánaða í júlí og 9,2% verðbólgu. 

„Húsnæði hefur verið einn helsti drifkraftur verðbólgunnar síðustu mánuði og er hækkunin sem nú sést í gögnum Þjóðskrár um íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu til þess fallin að breyta skoðun okkar. Nú teljum við að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,6% milli mánaða og að verðbólga muni mælast 9,3% í júlí en ekki 9,2%. Við spáum þó enn að verðbólga nái hámarki nú á þriðja ársfjórðungi og hjaðni svo hægt.“

Þá segir í Hagsjánni að ef litið er til þróunar á raunverði, þ.e. verðs á íbúðum umfram annað, sjáist að íbúðir hafa hækkað hraðar en aðrir undirliðir vísitölu neysluverðs. Þá hefur íbúðaverð ekki mælst jafn hátt frá aldamótum.

„Það sama á við um verð á íbúðum umfram byggingarkostnað. Verð á íbúðum umfram laun hefur þó ekki enn náð sama raunstigi og var þegar mest lét árið 2007 þó það muni orðið afar litlu. Það er margt sem bendir til þess að hækkanir íbúðaverðs séu komnar fram úr því sem æskilegt getur talist og því sé von á hófstilltari verðþróun. Mánaðarlegar tölur um íbúðasölu hafa dregist verulega saman eftir mikla aukningu í fyrra og á seinni hluta árs 2020. Á fyrstu 5 mánuðum ársins hafa að jafnaði selst um 530 íbúðir í hverjum mánuði sem er tæplega 60% færri íbúðir en seldust á sama tíma í fyrra, en áþekkur fjöldi og seldist á sama tíma á árunum 2019 og 2020. Það eru því ýmsar vísbendingar um að ró sé farin að færast yfir markaðinn þó það sjáist ekki enn í opinberum tölum um verðþróun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK