Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri og annar stofnandi Snerpu Power, og Eyrún Linnet, stjórnarformaður og meðstofnandi, segja nýja lausn fyrirtækisins geta bætt nýtingu á orkukerfinu á Íslandi.
Þá segir Íris að lausnin bjóði upp á tekjumöguleika.
„Ég veit hvað svona lausn getur gert mikið fyrir notandann, sem fær tækifæri til að selja brot af sínu rafmagni til baka upp á net á samkeppnishæfu verði þegar reksturinn býður upp á það. Hann fær því tekjur af sölunni og lækkar heildarraforkukostnað sinn.
Dregur úr álagstoppum
Þetta eykur líka hagræði í raforkukerfinu öllu og dregur úr álagstoppum. Lausnin gerir kerfið skilvirkara og er hagræðing fyrir alla. Við Eyrún ræddum svo saman en hún hefur mikla reynslu af notendahliðinni og mjög fljótlega varð ljóst að við deildum þessari sýn og ákváðum að gera hana að veruleika þannig að allir stórnotendur nytu góðs af,“ segir Íris.
Íris lýsir lausninni sem brú milli markaðarins og stórnotandans.
„Hún tengir saman gagnastrauma og sjálfvirknivæðir ferla sem eru að miklu leyti handvirkir hjá stórnotendum í dag. Lausn okkar sjálfvirknivæðir og bestar alla álagsáætlana- og tilboðsgerð þeirra, lágmarkar frávik í raforkupöntunum og gefur fulla yfirsýn yfir raforkunotkun sem og tekjur og kostnað tengdan raforkukaupum og -sölu,“ segir Íris.
Ítarlegt viðtal við þær birtist í ViðskiptaMogganum í dag.