Hlutabréf Marel og Kviku hafa lækkað mikið í viðskiptum í morgun, en í gær sendu bæði fyrirtækin frá sér tilkynningu vegna komandi uppgjörs á öðrum ársfjórðungi. Gengi Marels hefur lækkað um 8,24% í tæplega 100 milljón króna viðskiptum, en gengi Kviku hefur lækkað um 4,76% í 422 milljóna viðskiptum.
Í afkomuviðvöruninni sem Kvika sendi frá sér kemur fram að gert sé ráð fyrir því að hagnaður fyrir skatta verði allt að tveimur milljörðum lægri á tímabilinu en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Helgast þessi munu á lægri fjárfestingartekjum vegna aðstæðna á verðbréfamörkuðum.
Marel tilkynnti að fyrirtækið myndi fækka starfsfólki á heimsvísu um 5% vegna krefjandi rekstrarumhverfis, en rekstrarniðurstaðan var undir væntingum á fjórðungnum. Þýðir það að um 300 starfsmönnum verður sagt upp. Er áætlað að svokallað EBIT-hlutfall, sem mælir hagnað fyrir skatta og fjármagnstekjur, verði um 6,3%, en á sama tíma í fyrra var það 11,8%.