Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, segir nokkra þætti milda áhrif verðhækkana í helstu viðskiptalöndum á fjárhag íslenskra heimila. Krónan sé að styrkjast gagnvart Evrópumyntum og laun hér hafi hækkað meira en víðast erlendis. Þá hafi orkukostnaður ekki aukist jafn mikið og í Evrópu og í Bandaríkjunum en þar vegi þyngst að kostnaður við húshitun hafi ekki aukist eins og ytra. Síðastnefndi þátturinn, kynding með hitaveitu, vegi hér þungt.
Þetta kemur fram í ViðskiptaMogganum í dag.
„Mikilvægt er að auka orkuframleiðslu á Íslandi á næstu árum og áratugum til að þjóðin verði sjálfri sér næg um orku,“ segir Gylfi.
Samandregið hafi niðursveiflan í hagkerfum heimsins, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, minni áhrif á íslenskan almenning en á íbúa í mörgum helstu viðskiptalöndum okkar.
Tilefnið er sú mikla ólga sem kraumar undir í mörgum ríkjum Evrópu vegna hækkandi verðlags og raunar í Bandaríkjunum líka.
Íslendingar búsettir í Evrópu finna vel fyrir hækkandi verðlagi.
Hallgrímur Árnason, listmálari í Vín, segir marga borgarbúa kvíða vetrinum. Kostnaður við kyndingu hafi aukist mikið eftir að jarðgas hækkaði í verði í kjölfar stríðsins og jafnvel óvíst um framboðið í vetur.
Annar Íslendingur í Vínarborg, sem Morgunblaðið ræddi við, áætlaði að sitt heimili myndi greiða um 120 þúsund krónum meira í kyndingu í ár en í fyrra. Hins vegar myndu opinberir mótvægisstyrkir gera gott betur en að vega það upp en þann kostnað muni skattgreiðendur bera að lokum. Fjölskyldan hafi sparað kyndingu undanfarið en nú sé rætt um að skammta þurfi gasið í vetur.
Maximo Torero, yfirhagfræðingur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), segir miklu máli skipta að koma birgðum af kornmeti út úr Úkraínu. Það sé enda farið að ganga á heimsbirgðirnar og það geti með tímanum þrýst á verð.
„Fæðuframboð er ekki vandamál í ár en gæti orðið það á næstu tveimur árum,“ segir Torero en ViðskiptaMogginn hitti hann að máli í Róm.
Torero segir aðgerðir til að örva hagkerfin í kórónukreppunni hafa ýtt undir verðhækkanir á hrávöru og matvöru. Matarverð hafi því verið á uppleið fyrir innrás Rússa í Úkraínu.
Nú sé röskun á framleiðslu áburðar líka áhyggjuefni en áburðarverð sé hátt og því verði matvælaframleiðsla að óbreyttu ekki aukin jafn mikið á næstunni og vonast var til.
Nánari umfjöllun um málið má finna í ViðskiptaMogganum í dag, miðvikudag.