Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í júní hækkaði um 2,2% milli maí og júní sem er meiri hækkun en Hagfræðideild Landsbankans hafði spáð.
Um þetta er fjallað í Hagsjá Landsbankans.
„Það höfðu borist vísbendingar um að markaðurinn væri farinn að róast og var þessi mæling því aðeins ofan við væntingar okkar,“ segir þar um hækkunina í júní.
Hægir á hækkun sérbýlis
„Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 2,2% milli maí og júní. Fjölbýli hækkaði um 2,6%, en sérbýli 0,8%. Á síðustu mánuðum hefur sérbýli hækkað á bilinu 2% til 4% milli mánaða og er hækkunin á sérbýli því mun hófstilltari nú,“ segir í Hagsjánni.