Icelandair Group hagnaðist um 522 milljónir á öðrum ársfjórðungi ársins 2022. Þetta er í fyrsta skipti sem félagið skilar hagnaði síðan 2017.
Tekjur félagsins á fjórðungnum námu 42,5 milljörðum króna, sem eru um 32,5 milljörðum króna hærri tekjur en á sama tímabili í fyrra. Tekjuvöxtinn má aðallega skýra vegna aukningar á farþegatekjum.
Lausafjárstaða félagsins hefur aldrei verið sterkari og nam 61,6 milljörðum króna í lok júní. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
„Að skila hagnaði á öðrum ársfjórðungi er stór áfangi á vegferð okkar að koma félaginu í arðbæran rekstur. Með því að nýta sveigjanleika leiðakerfisins og þá sterku innviði sem við búum yfir höfum við aukið flugframboð hratt til að mæta mikilli eftirspurn og á sama tíma náð að bæta sætanýtingu og framlegð, þrátt fyrir að eldsneytisverð hafi meira en tvöfaldast á síðastliðnum 12 mánuðum.
Slíkur viðsnúningur gerist ekki af sjálfu sér heldur er árangur þrotlausrar vinnu okkar reynslumikla starfsfólks sem hefur staðið sig frábærlega í mjög krefjandi aðstæðum. Ég vil þakka starfsfólkinu okkar þennan góða árangur [..],” segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair í tilkynningu.