583 milljarða sátt í máli tengdu Actavis

Faraldur ópíóíðalyfja hefur geisað víða.
Faraldur ópíóíðalyfja hefur geisað víða.

Ísraelski lyfjaframleiðandinn Teva hefur komist að samkomulagi utan dómstóla um að borga 4,25 milljarða bandaríkjadala, eða sem nemur um 583 milljörðum íslenskra króna, í bætur vegna sölu fyrirtækisins á ópíóíðum.

Þar með talið eru 550 milljónir dala sem fyrirtækið hefur þegar fallist á að greiða í bætur vegna dómsmála í San Francisco, á Flórída, í Vestur-Virginíu, Texas, Louisiana og Rhode Island.

New York Times greinir frá þessu.

Viðtakendur bótanna geta valið um að fá hluta þeirra í formi lyfja sem venja sjúklinga af ópíóíðum. Samkvæmt heimildarmönnum blaðsins mun 10-12% bótafjárhæðarinnar renna í vasa lögmanna sem hófu málsóknir vegna þessa árið 2013. 

Íslenska lyfjafyrirtækið Acta­vis, sem rann inn í Teva frá stórfyrirtækinu Allergan árið 2016, var árið 2019 sagt eitt þeirra þriggja fyr­ir­tækja sem seldu hvað mest af ópíóíðalyfj­um í Banda­ríkj­un­um árin 2006 til 2012. Lyf­in voru markaðssett sem óávana­bind­andi verkjalyf, en reynsl­an hef­ur sýnt annað.

Báðu Actavis um að draga úr framleiðslu lyfjanna

Rifjað er upp í umfjöllun New York Times að Actavis sé í eigu Teva, sem keypt hafi íslenska fyrirtækið árið 2016. Tekið er fram að Allergan þurfi einnig að ná sáttum í sama máli, svo að hægt sé að ljúka samkomulaginu. Búist er við að þær sættir náist fljótlega.

Bandaríska lyfjaeftirlitið bað Actavis um að draga úr framleiðslu ópíóíðalyfja sem fyrirtækið seldi í Bandaríkjunum um 30 til 40 prósent árið 2012, þegar ópíóíðafaraldur geisaði í landinu, að því er Washington Post greindi frá árið 2019.

Samkvæmt Miðstöð sóttvarna í Bandaríkjunum (CDC) hafa nokkur hundruð þúsund manns látið lífið í ópíóðafaraldrinum frá árinu 1999 en ein bylgja dauðsfalla, frá og með 2013, er sett í samhengi við lyfseðilsskyld lyf.

Höfuðstöðvar Teva í Jerúsalem.
Höfuðstöðvar Teva í Jerúsalem. AFP

Mun meiri framleiðsla en hjá Purdue Pharma

Samkomulagið nú mun leiða mörg þúsund dómsmála gegn fyrirtækinu til lykta en Teva, meðal annars undir merkjum Actavis, var einn stærsti framleiðandi ópíóíðalyfja í Bandaríkjunum.

Teva hefur þar með gert sátt við um það bil 2.500 aðila sem lögsóttu fyrirtækið fyrir sinn hlut í ópíóíðafaraldrinum sem gengur enn yfir í Bandaríkjunum.

Teva framleiddi mun fleiri verkjalyf gerð úr ópíóíðum, þegar faraldurinn stóð sem hæst, en bæði Johnson & Johnson og Purdue Pharma sem þó hafa verið hvað mest bendluð við faraldurinn. 

Viðurkenna ekki neitt rangt

Greiðslan verður gerð yfir næstu þrettán ár og er henni ætlað að hjálpa fólki sem er háð lyfjunum og berjast gegn ópíóíðafaraldurinn í Bandaríkjunum sem varð verri á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð.

Þrátt fyrir sáttina axlar Teva enga ábyrgð á faraldrinum en í tilkynningu frá fyrirtækinu segir: 

„Samkomulagið ber með sér enga viðurkenningu um að við höfum gert eitthvað rangt en það eru miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir okkur að segja skilið við þetta mál til að halda áfram að sinna þeim sjúklingum sem við þjónum á hverjum degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK