Verslun 66°Norður hefur verið opnuð á Hafnartorgi. Hún er staðsett á nýja hafnarsvæðinu við hliðina á Edition-hótelinu og nýjum höfuðstöðvum Landsbankans við Hörpu.
Fram kemur í tilkynningu að verslunin sé 300 fermetrar og með stærstu verslunum 66°Norður.
„Það var ávallt keppikefli hjá okkur að opna verslun þarna við gömlu höfnina enda var upphaf Sjóklæðagerðarinnar í beinni tengingu við sjóinn og við framleiðslu á skjólfatnaði fyrir íslenska sjómenn sem við sinnum enn þá í dag,“ segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður, í tilkynningu.