Pítsustaðurinn Glósteinn, sem er til húsa við Nethyl í Árbæ, var opnaður í síðasta mánuði við góðar viðtökur heimamanna.
Berglind Björk Þórhallsdóttir, eða Blenda eins og hún er kölluð, hafði lengi átt sér þann draum að fara út í eigin rekstur. Hún lét loks verða af því í apríl, er hún tók atvinnuhúsnæði við Nethyl 2 á leigu, þar sem Gallerí Fiskur var áður.
„Ég eiginlega valdi staðsetninguna áður en ég valdi starfsemina; það eru líklega ekki margir sem gera það,“ segir Blenda og viðurkennir að það hafi í raun verið tilviljun að hún tók húsnæðið á leigu.
„Þeir voru búnir að vera í rekstri þarna í 20 ár með Gallerí Fisk og svo veitingahúsið. Vikuna áður hafði fasteignasali komið og tekið myndir því þeir voru að hætta. Við komum þarna inn á hárréttum tíma — þeir náðu ekki einu sinni að auglýsa staðinn,“ segir Blenda sem sá þarna gott tækifæri og greip það.
Blenda segist aðspurð ekki hafa reynslu í rekstri pítsustaða, en hún hefur aðstoðað fjölskyldu sína við ýmsan rekstur frá blautu barnsbeini. Hún er menntaður klæðskeri og fatahönnuður.
„Pítsubakarinn sagði einmitt við mig: „Við höfum aldrei vitað um gellu sem opnar pítsustað og hefur ekki unnið á pítsustað,“ segir hún og hlær. „Ég hef enga reynslu af rekstri pítsustaðar en við ákváðum að prófa eitthvað nýtt.“
Innt eftir ástæðunni fyrir þeirri ákvörðun segir Blenda að hún og maðurinn hennar elski eldbakaðar pítsur og það hafi hjálpað þeim við að velja starfsemina. Þau leggi mikla áherslu á gæðahráefni og geri flest frá grunni. Hún hóf að standsetja staðinn 1. apríl en nokkur bakslög urðu til þess að staðurinn var opnaður tæplega þremur mánuðum seinna. Það hefði þó ekki verið hægt nema með hjálp fjölskyldu Blendu.
Nánar má lesa um málið í ViðskiptaMogganum í dag.